Hér að neðan má lesa texta að ræðu formanns Vildarvina við afhendingu gjafar og styrkja í Síldarminjasafninu á föstudaginn 10. júní síðastliðinn.

Á árinu 2008 á afmælisdegi Siglufjarðar 20. maí  var stofnað félag sem fékk nafnið Vildarvinir Siglufjarðar.  Stofnendur félagsins voru ýmsir einstaklingar tengdir Siglufirði ásamt Siglfirðingafélaginu.

Tilgangur félagsins er að vinna að áhugaverðum menningar- og félagslegum verkefnum á Siglufirði og stuðla að eflingu byggðarinnar á sviði ferðaþjónustu og annarrar atvinnustarfsemi.

Vildarvinir Siglufjarðar hafa frá stofnun styrkt mjög mörg verkefni á Siglufirði auk þess sem félagið setti sér snemma það markmið að tryggja að veglega yrði haldið upp á 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar á árinu 2018.  Stærsta verkefnið tengt afmælinu var að ná að fjármagna og láta framleiða fimm sjónvarpsþætti um sögu Siglufjarðar – „Siglufjörður – saga bæjar“.  Voru þættirnir teknir til sýninga í upphafi árs 2020 og heppnuðust sérstaklega vel.

Samhliða vinnslu sjónvarpsþáttanna söfnuðu Vildarvinir kvikmyndaefni frá fyrri tíð og létu yfirfæra það á stafrænt form.  Allt það efni var afhent Fjallabyggð og Síldarminjasafninu til varðveislu.  Efnið sem safnað var tekur yfir 70 klukkustundir í sýningu.

Starfsemi Vildarvina 2008-2022

Fljótlega eftir stofnun Vildarvina varð algjör viðsnúningur í uppbyggingu Siglufjarðar í öllum þeim megin þáttum er tengdust markmiðum félagsins.  Allnokkurt stofnfé hafði safnast og ljóst var að opnun Héðinsfjarðargangnanna yrði bæjarfélaginu mikil lyftistöng.  Vildarvinir héldu áfram söfnun fjármuna og fljótlega fóru megin verkefnin að þróast yfir í að safna nægjanlegu fé til að halda veglega upp á komandi afmæli Siglufjarðar.  Þó voru árlega veittir styrkir til verkefna á Siglufirði.  Þau verkefni sem hafa hlotið styrki frá Vildarvinum frá stofnun félagsins eru:  Boltaskóli Grétars Rafns, Þjóðlagasetur, Valló, Ljóðasetrið, GKS, Skógræktarfélagið, Björgunarsveitin Strákar og SSS.  Skíðafélaginu gáfu Vildarvinir myndlykla með sjónvarpsþáttunum verkefna til sölu til að fjármagna skíðalyftu („töfrateppi“) fyrir börn í Siglufjarðarskarði.

Heildarfjármagn styrkja frá Vildarvinum árin 2008 – 2020 er um 1,5 milljón króna og hlutdeild Vildarvina við framleiðslu sjónvarpsþáttanna og yfirfærslu kvikmyndanna var um 12,5 mkr.  Styrkir þeir sem nú voru afhentir í tengslum við slit á félaginu og gjöf til Sílarminjasafnsins nema samtals um 1,5 mkr.  Auk þess nýtti SSS sér sölu á myndlyklum sem færði félaginu um 1,5 milljónir króna. Alls hafa því Vildarvinir ráðstafað um 17 milljónum króna til Siglufjarðar frá stofnun félagsins

Framtíðin – öll ævintýri taka enda

Á síðasta aðalfundi Vildarvina Siglufjarðar var ákveðið að slíta félaginu eftir 14 ára starfsemi. Það hafa verið forréttindi og mikil ánægja að fá að koma að starfsemi Vildarvina frá upphafi.

Frá afhendingu þess myndefnis sem gefið var á afmælinu 2018 hafa borist fyrirspurnir um hvar og hvort unnt væri að skoða það.  Okkur í Vildarvinum varð þá ljóst að uppá vantaði á gjöf okkar búnað, tölvu, skjái og hugbúnað til þess að gera myndefnið aðgengilegt auk aðstöðu í safninu. Við fórum því þess á leit við Síldarminjasafnið að þau finndu hjá sér aðstöðu fyrir slíkan búnað og Vildarvinir gæfu búnaðinn.   Nú hefur með aðstoð góðra aðila tekist að finna úrvals búnað sem okkur er sönn ánægja að afhenda Síldaminjasafninu til eignar.

Samhliða því að afhenda Síldarminjasafninu tækjabúnað að verðmæti um 500 þúsund krónur munu Vildarvinir ráðstafa eftirstöðvum fjármagns í eigu félagsins, um einni milljón króna, þremur menningarverkefnum á Siglufirði.

Við þessum þremur styrkjum tóku Þórarinn Hannesson, Fríða Gylfadóttir og Aðalheiður Eysteinsdóttir.

Myndir/ frá afhendingu gjafa og styrkja.