Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 13. fundi sínum þann 10. maí 2023 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Hraun í Fljótum skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan er sett fram á uppdrætti og greinargerð dagsett 25. apríl 2023 og er unnin af teiknistofunni Kollgátu ehf. fyrir hönd landeigenda.

Skipulagssvæðið er 48 ha að stærð og afmarkast af Siglufjarðarvegi og landnotkunarreitum AF-19, VÞ-09 og VÞ-10 í Aðalskipulagi Skagafjarðar 2022-2035. Aðkoma að svæðinu er frá Siglufjarðarvegi. Markmið deiliskipulagsins er að gera landeiganda kleift að hefja uppbyggingu á ferðaþjónustu á svæðinu með byggingu mannvirkja sem styðja slíkan rekstur. Viðfangsefni tillögunnar eru meðal annars skilgreining á tíu lóðum, aðkomu að þeim og byggingarskilmálar.

Skipulagstillagan er auglýst frá 17. maí til og með 28. júní 2023. Tillagan mun liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá 10-12 og 12:30-15 og hér á heimasíðu Skagafjarðar.

Athugasemdir og ábendingar varðandi skipulagstillöguna skulu vera skriflegar og berast skipulagsfulltrúa eða afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is í síðasta lagi 28. júní 2023.