Fjármála- og efnahagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra hyggjast setja á laggirnar starfshóp um gjaldtöku á erlendar streymisveitur.  Í starfshópnum munu sitja þrír fulltrúar ráðuneyta. Hópnum er ætlað að ljúka vinnu sinni eigi síðar en 1. júlí næstkomandi.  

„Við teljum ráðgert að setja af stað starfshóp með það hlutverk að skoða gjaldtöku á streymisveitur, þar með talið hið svokallaða menningarframlag. Starfshópnum er ætlað að skoða til hvaða aðgerða er hægt að grípa í þessum efnum með hliðsjón af skuldbindingum Íslands á þessu sviði, bæði lagalega og á vettvangi OECD.“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.  

Með örri tækniþróun hefur fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni eftir pöntun, svokölluðum streymisveitum, fjölgað til muna á síðustu árum. Stórar alþjóðlegar streymisveitur eru ráðandi á markaðinum og búa þær við þann kost að geta verið staðsettar í einu EES ríki en beint efni sínu til annarra EES-ríkja. 

Mikil umræða hefur verið um framlag slíkra alþjóðlegra streymisveitna til þeirra landa þar sem þjónusta af þeim er keypt, svonefnt menningarframlag. Á sama tíma hefur OECD beitt sér fyrir samræmdri nálgun þegar kemur að gjaldtöku á stafrænu efni sem fer yfir landamæri. Innlendir fjölmiðlar hafa því kallað eftir því að tekið verði til skoðunar samkeppnisumhverfi innlendra og erlendra fjölmiðlaveitna og þá sérstaklega með tilliti til skattaumhverfis þessara aðila.  

Starfshópnum er ætlað að ljúka vinnu sinni eigi síðar en 1. júlí n.k. svo unnt verði að leggja fram frumvarp til lagabreytinga á haustþingi ef vinna hópsins leiðir í ljós að þess gerist þörf. 

Mynd/aðsend