Byggðarráð Skagafjarðar sem starfar í umboði sveitarstjórnar Skagafjarðar samþykkti á 104. fundi sínum þann 3. júlí 2024 að auglýsa eftirtaldar vinnslutillögur fyrir breytingar á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vinnslutillögurnar eru settar fram í greinargerðum dags. júní 2024, unnar af VSÓ ráðgjöf.

Deplar í Fljótum VÞ-2 og FV-1 (málsnúmer 878/2024)

Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 – 2035 sem felur í sér breytingar á verslunar- og þjónustusvæði á Deplum (L146791) í Fljótum og skráningu á lendingarstað í landi Depla (L146792).

Hér er sett fram vinnslutillaga að breytingu á aðalskipulagi til kynningar sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulags nr. 123/2010.
Eigendur og rekstraraðilar á Deplum í Fljótum hafa óskað eftir breytingu á aðalskipulagi í samræmi við uppbyggingaráform á Deplum. Öflug ferðaþjónusta er rekin á Deplum þar sem reistur hefur verið veiði- og gistiskáli. Áform er að stækka svæðið undir verslun og þjónustu og auka þar byggingarheimildir.

Á áreyrum við Stífluá neðan við veiði- og gistiskálann hefur verið afmarkaður lendingarstaður sem notaður er í tengslum við ferðaþjónustu á Deplum. Óskað er eftir að lendingarstaðurinn verður merktur inn á aðalskipulag Skagafjarðar.
Tillaga er að breyta afmörkun á verslun og þjónustu (VÞ-2), sem merkt er inn á sveitarfélagsuppdrátt sem punktur en verður breytt í landnotkunarfláka, þar sem stærð flákans verður meiri en 3 ha.

Tillaga er að afmarka lendingarstað (FV-1) á áreyrum Stífluár. Yfirborð lendingarstaðarins er möl eða gras. Ekki eru fyrirhugaðar byggingar innan lendingarstaðarins. Óheimilt er að reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m.
Svæðin eru skilgreind sem landbúnaðarland í núverandi aðalskipulagi.

Vinnslutillaga – Deplar

Vinnslutillögurnar eru auglýstar frá 10. júlí til og með 23. ágúst 2024. Hægt er að skoða vinnslutillögurnar í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á www.skipulagsgatt.is undir viðeigandi málsnúmerum. Vinnslutillögurnar munu jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér á heimasíðu Skagafjarðar www.skagafjordur.is.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi vinnslutillögurnar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is í síðasta lagi 23. ágúst 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.

Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni. Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.