Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi.
Hér má finna helstu atriði varðandi notkun þeirra og öryggi:
Vélknúin hlaupahjól (oft kölluð rafhlaupahjól, rafmagnshlaupahjól, rafskútur) tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst., sjá skilgreiningu í c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3 gr. umferðarlaga.
Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.
Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna.
Athugið sérstaklega að börn og ungmenni undir 16 ára aldri eiga skv. lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar en mælt er með að allir noti hjálm á rafhlaupahjóli öryggisins vegna.
Samgöngustofa hefur látið gera myndband um notkun þessara farartækja, með íslensku tali og textuð á ensku og pólsku.