Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um vöktun á landlægum sjúkdómum í íslenska hrossastofninum.

Íslenski hrossastofninn býr við þá sérstöðu að vera laus við alla alvarlegustu smitsjúkdómana sem þekktir eru í hrossum á heimsvísu. Má þar nefna kverkeitlabólgu, hestainnflúensu, hestaherpes týpu-1 og smitandi blóðleysi. Árlega er skimað fyrir þremur síðastnefndu sjúkdómunum og þannig lagður grunnur að skráningu á þessari góðu sjúkdómastöðu hjá Alþjóða dýraheilbrigðisstofnuninni, OIE. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir útflutning hrossa en hross héðan eru undanþegin sóttkví í löndum Evrópusambandsins og þau fara aðeins í takmarkaða sóttkví í Bandaríkjunum.

Nokkur vægari smitefni eru þó landlæg, annað hvort frá fornu fari eða hafa borist í hrossastofninn í seinni tíð. Einnig eru smitefni í umhverfinu sem geta valdið fóðursýkingum eða öðrum tilfallandi sjúkdómum. Mikilvægt er að hafa yfirlit yfir landlæga sjúkdóma og tryggja samræmd viðbrögð við þeim, enda falla þeir alla jafna ekki undir viðbragðsáætlun Matvælastofnunar vegna alvarlegra dýrasjúkdóma.

Góð þekking á landlægum smitsjúkdómum er nauðsynleg til að tryggja að nýir sjúkdómar sem kunna að berast í íslenska hrossastofninn uppgötvist fljótt og örugglega. Hún stuðlar auk þess að réttri meðhöndlun og dregur úr óþarfa notkun á sýklalyfjum. Vöktun á landlægum sjúkdómum er því til þess fallin að vernda heilsu og velferð íslenska hrossastofnsins.

Leiðbeiningarnar eru ætlaðar bæði starfandi dýralæknum og hrossaeigendum.

Ítarefni

Skoða á mast.is