Þegar ég var að alast upp á Hvammstanga, upp úr miðri síðustu öld, voru nokkrar verslanir á staðnum. Eftirminnileg er Verzlun Sigurðar Pálmasonar, ( ýmist kallað VSP eða Siggi Pá ), sem var nokkuð stórt fyrirtæki á þeim tíma, með verslun, pakkhús, sláturhús og fleira. Verslunar- og skrifstofuhúsið var byggt 1926 og er enn í dag mjög glæsilegt hús.

Í þessu húsi var Verzlun Sigurðar Pálmasonar
Gamla pakkhús VSP er núna Gallerí Bardúsa verslunarminjasafn.

Hér var pakkhús VSP en er nú Gallerí Bardúsa. Í risinu var um tíma rafmagnsvöru lager. Þar verslaði maður oft með pabba, Helga S. Ólafssyni rafvirkjameistara.

Gallerí Bardúsa á Hvammstanga, skreytt með gulum lit í tilefni Elds í Húnaþingi 2018
Rétt hjá Bardúsu stendur gamall traktor, Farmall Cub, sem Ágúst Sigurðsson ( Gústi í Mörk ) hefur gert upp.

Þetta gæti verið auglýsingamynd fyrir Farmall Cub dráttarvélar.

Farmall Cub – eins og nýr.
Skammt frá standa þessir glæsilegu Willys jeppar, – sem áðurnefndur Gústi í Mörk og Siggi Þór sonur hans hafa gert upp – til í slaginn.

Willys jeppi

Annar Willys jeppi

Willys jeppi
Það er ánægjulegt þegar menn leggja það á sig að gera upp og varðveita gamla fallega hluti.
Frétt og myndir: Gunnar Smári Helgason