Fjallabyggð hefur gert rekstrarsamning við fyrirtækið Kjarabakka ehf um rekstur tjaldsvæða Fjallabyggðar á Siglufirði. Starfsmenn fyrirtækisins eru þeir Gestur Þór Guðmundsson og Sigmar Bech og munu þeir annast rekstur og umsjón tjaldsvæðanna sumarið 2018. Tjaldsvæðin á Siglufirði eru tvö, annað staðsett í miðbænum við ráðhústorgið og smábátabryggjuna og hitt sunnan við snjóflóðavarnargarðinn Stóra bola.

Þann sama dag og þeir félagar opna tjaldsvæðið yfirtaka þeir rekstur á Harbour House sem staðsett er á hafnarsvæðinu á Siglufirði og opnar það kl. 17.00 föstudaginn 11. maí.

Harbour House

 

Sigmar Bech er ættaður héðan frá Siglufirði, hefur hann dvalið hér undanfarin ár og starfað á Sigló Hótel. Sigmar er menntaður framreiðslumaður. Gestur Þór Guðmundsson er fæddur og uppalinn í Skagafirði, hann er menntaður leiðsögumaður og hefur starfað sem slíkur undanfarin ár. Sigmar og Gestur Þór hittust fyrst fyrir um ári síðan á Harbour House og í framhaldi stofnuðu þeir tvö fyrirtæki í ferða- og veitingaþjónustu, annað er Wild Tracks sem sér um útleigu á fjallahjólum ástamt leiðsögumennsku.

Þegar auglýst var eftir umsjónaraðila fyrir tjaldsvæðið á Siglufirði ákváðu þeir að sækja um það og fengu. Þar ætla þeir að hafa starfsmann sem verður ávallt á svæðinu, einnig verður sú nýjung að þar verður frítt WiFi fyrir gesti.

Þeir hafa einnig yfirtekið rekstur Harbour House og ætla sér stóra hluti þar. Í grunnin verður lagt upp með það sem Harbour House hefur gefið sig út fyrir,  ferskt sjávarfang eins og fiskisúpu, bleikju, þorsk og annað ferskmeti sem fæst hér á svæðinu. Einnig verður boðið upp á smurbrauð og þá nýung að hafa brunch um hádegi á laugar- og sunnudögum.

Til liðs við Sigmar og Gest Þór er Sigríður Vilhjálmsdóttir, hún fæddist á Siglufirði en flutti með móður sinni Margréti Þóroddsdóttur til Svíþjóðar fimm ára gömul. Kom hún aftur til baka 15 ára gömul og lauk gagnfræðaprófi á Siglufirði. Sigríður er menntaður matsveinn og hefur starfað sem kokkur undanfarin 30 ár, mun hún ráða ríkjum í eldhúsinu.

Harbour House verður hugsað sem miðstöð fyrir upplýsinga- afþreyingarþjónustu fyrir ferðamenn með mat og afþreyingu, þar sem hægt verður að njóta ljúffengra veitinga og leigja fjallahjól, sjóbretti eða fá leiðsögn um umhverfið hér í kring.

Tjaldsvæðið verður opnað föstudaginn 11. maí og verður opið til 15. október.
Upplýsingasími tjaldsvæðisins er 843-9892 og Harbour House er 659-4809. Netfang: sigmarbech@internet.is

Gjaldskrá tjaldsvæða Fjallabyggðar er aðgengileg hér. 

Texti og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir