Eitt mesta hitamál sem yfir Ólafsfjörð hefur dunið nú í seinni tíð er brotthvarf sjúkrabílsins síðastliðið sumar. Mikil reiði meðal fólks og fólk upplifði öryggisleysi. Skiljanlega því öll viljum við hafa sjúkrabíl.

Tómas Atli Einarsson

Síðasta vor birtist yfirlýsing frá forstjóra HSN (JHB). Þar sem óskað var eftir aðkomu slökkviliðs og eða Björgunarsveitarinnar Tinds (BT) að vettvangsliðateymi. Bæjaryfirvöld neituðu aðkomu slökkviliðs að málinu, BT situr með Svarta Pétur.

Nú ætla ég að lýsa atburðarrásinni.

Mín fyrstu viðbrögð við þessari yfirlýsingu voru þau að hringja í forstjóra HSN og krefja hann svara um vinnubrögðin, af hverju fór hann þessa leið að óska aðkomu björgunarsveitar í gegnum fjölmiðla. Við áttum ágætis spjall, þar sem hann útskýrði rökin fyrir þessari ákvörðun. Eftir þetta samtal, boðaði ég til fundar hjá björgunarsveitinni. Fundarefnið; hugsanleg aðkoma BT að vettvangsliðateymi.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa: Skráðu mig úr björgunarsveitinni! Hættum að styrkja ykkur! Þið eyðileggið ekki möguleika okkar á að fá sjúkrabílinn aftur! Ef ég lendi í einhverju þá vil ég ekki fá ykkur til aðstoðar! Það þarf bara einn að deyja til að sjúkrabíllinn komi aftur!!!!!
Samræðu hefur skort, mikið er um upphrópanir og reiði. Bræðin er það mikil að rökhugsun er látin lönd og leið, við skulum, sama hvað það kostar. Virðing fyrir lífum hvarf, fremur skyldi mannslífi fórnað en að takast á við þá ákvörðun sem blasti við. Ábyrgð þeirra sem standa fyrir svona umræðu er mikil.

Umræðan sem fór af stað og beindist meðal annars að einstaklingum innan björgunarsveitarinnar og sveitinni í heild gæti hafi orðið til þess að fólk sem var búið að lýsa yfir áhuga á því að starfa í vettvangsliðateyminu sé orðið því fráhverft.
Óskað var eftir að BT myndi ekki aðhafast neitt í stofnun vettvangsliðateymis. Við því var orðið.
Góður vinur minn sem marga fjöruna hefur sopið, sagði við mig á dögunum; eyddu 10 prósent af tímanum í að greina vandamálið og 90 prósent í að leysa það. Lausnamiðuð hugsun heitir það.

Í mínum huga var það ljóst snemma í þessu ferli að þessari ákvörðun yrði ekki snúið og við yrðum að stofna vettvangsliðateymi ef við vildum hafa eitthvað viðbragð í Ólafsfirði. Sunnudaginn 4. febrúar á stjórnarfundi Björgunarsveitarinnar Tinds, samþykktu allir sjö stjórnarmenn að halda áfram með undirbúningsvinnu vettvangsliðateymis. Að mínu mati það eina í stöðunni til að bregðast við því ástandi sem upp var komið og búið að vera alltof lengi.
Regluverk í kringum vettvangsliðateymi er ekki til, eða í besta falli mjög óljóst. Hugsunin á bak við svona teymi er sú að það sé byggt upp af sjálfboðaliðum sem eru til taks ( líkt og björgunarsveitir ) fyrir þann sem verður fyrir alvarlegum veikindum eða slysi og þarf bráða aðstoð.

Teymið hefur yfir að ráða öllum þeim búnaði sem til þarf til að tryggja og hlúa að sjúkling á vettvangi þar til sjúkrabíll kemur. Þjálfunin sem meðlimir fá kallast First Responder og er viðurkennt nám fyrir aðila sem líklegir eru til að koma fyrstir á vettvang slysa og veikinda. Hægt er að lesa sér til um námið á vef sjúkraflutningaskólans, ems.is.

Á íbúafundi sem haldinn var í Tjarnarborg 7. mars komu forsvarsmenn HSN og fulltrúi velferðarráðuneytisins, beindi ég einni spurningu til þeirra.
Ef björgunarsveitin neitar aðkomu að vettvangsliðateyminu eða það tekst ekki að stofna slíkt teymi. Mun það verða til þess að snúa þessari ákvörðun? Svarið var nei.

Nú ætti þér lesandi góður, (og takk fyrir að lesa þetta) að vera það ljóst að besti kosturinn þegar ljóst er orðið eftir svar frá velferðarráðuneytinu að sjúkrabíllinn er farinn, er að stofna vettvangsliðateymi.
Líf verður ekki bætt. Ábyrg hugsun, virðing og samfélagsvitund eru gildin sem við skulum hafa að leiðarljósi þegar kemur að þessu stóra máli er varðar öryggi íbúa Ólafsfjarðar og þeirra sem leið eiga hér um.
Samningur HSN við BT er nú undirritaður.

Þegar þetta er ritað eru áhugasamir einstaklingar þegar búnir að setja sig í samband við undirritaðan, bæði aðilar innan BT og utan. Enn vantar okkur upp á fjöldann til að hafa teymið nægilega fjölmennt.
Nú kalla ég eftir öllum sem vettlingi geta valdið og sérstaklega fólki sem hefur reynslu, getu og vilja til að vinna samfélaginu til heilla.

Ert þú í þeim hópi? Eða ætlar þú ekki og vilt ekki? Ef þú getur ekki þá skil ég þig.

Áhugasamir geta haft samband við undirritaðan.

Tómas Einarsson
Formaður BT.

Texti og myndir: Tómas Atli Einarsson