Eins og kom fram í frétt á Trölla.is sjá hér, um atvinnuleysi í Fjallabyggð í september 2019 má sjá að það voru 32 einstaklingar á atvinnuleysisskrá. Í næsta sveitarfélagi Skagafirði vekur það athygli að aðeins voru 12 skráðir þar atvinnulausir á sama tíma í u.þ.b. helmingi fjölmennara byggðarlagi. Í Skagafirði voru 6 konur og 6 karlar án atvinnu.
Á síðu Vinnumálastofnunar segir að skráð atvinnuleysi í september mældist 3,5% og breyttist ekki frá ágúst. Að jafnaði voru 6.563 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í september og fækkaði um 185 frá ágúst. Alls var 2.461 fleiri á atvinnuleysisskrá í september 2019 en í september árið áður.
Alls voru 3.585 karlar að jafnaði atvinnulausir í september og 2.978 konur og var atvinnuleysi 3,4% meðal karla og jókst um 0,1 prósentustig og 3,6% meðal kvenna og minnkaði um 0,1 prósentustig frá ágúst. Gera má ráð fyrir að skráð atvinnuleysi aukist lítils háttar í október vegna árstíðarsveiflu og verði á bilinu 3,6% til 3,8%.
Í september tók 1.131 einstaklingur þátt í úrræðum eða starfsþjálfunarverkefnum. Um 570 einstaklingar fóru í ýmiss konar grunnúrræði.
Alls fóru 830 einstaklingar af skrá í septembermánuði, þar af fóru 482 í vinnu eða um 58%. Alls komu inn 100 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í september. Um nokkuð fjölbreytt störf var að ræða en mest störf verkafólks í ýmiss konar þjónustu eða 41 starf. Þá voru auglýst 19 þjónustustörf og 15 afgreiðslustörf.
Í september gaf Vinnumálastofnun út 226 atvinnuleyfi til útlendinga til að starfa hér á landi. Af útgefnum leyfum voru 94 til nýrra útlendinga á íslenskum
vinnumarkaði og 132 leyfi voru framlengd. Samkvæmt skráningu til Vinnumálastofnunar voru 44 erlend þjónustufyrirtæki starfandi í september 2019
með samtals 286 starfsmenn.
Þá voru starfsmenn starfsmannaleiga, innlendra og erlendra samtals 995 í september á vegum 24 starfsmannaleiga. Alls voru 2.633 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok september eða um 37% allra atvinnulausra. Þessi fjöldi samsvarar um 7,5% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.