Nú er ein mesta ferðahelgi ársins hafin og þá gildir að hafa tímann fyrir sér, fylgja umferðarreglum og sýna þolinmæði í umferðinni. Ekki hefur hann alveg verið búinn að tileinka sér þetta leiðarljós, ungi ferðamaðurinn sem ók hringveginn í Hörgárdal nú eftir hádegið. Hann mætti lögreglubíl og var mældur með radar og reyndist vera á 133 kílómetra hraða.

Lögreglan snéri við og hóf eftirför á eftir manninum með blá ljós. Ekki virtist hann veita því athygli en ók inn á Ólafsfjarðarveg, þar sem hann ók fram úr nokkrum bílum. Lögreglumönnunum í eftirförinni sóttist seint að draga manninn uppi vegna mikillar umferðar í báðar áttir og þess að hann virtist ekkert slá af.

Þá bar svo við að önnur lögreglubifreið var einmitt við eftirlit á Ólafsfjarðarvegi á sama tíma og kom ferðamaðurinn hraðskreiði nú inn í radargeisla þeirrar bifreiðar á 126 kílómetra hraða. Loks tókst að stöðva för hans áður en slys hlaust af. Aðspurður um aksturslagið sagði ökumaðurinn að hann væri nýkominn til Íslands og hefði ekki að fullu verið búinn að kynna sér þær reglur sem gilda hér um leyfðan hámarkshraða.

Hann er trúlega einhvers vísari eftir að hafa fengið leiðsögn lögreglu og greitt 172.500.- kr. í sekt á staðnum.

 

Frétt og mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestra