Í dag 28. ágúst eru 30 ár liðin síðan tvær stórar aurskriður og margar smærri féllu úr Tindaöxl á byggðina í Ólafsfirði og er mörgum Ólafsfirðingum enn í fersku minni. Tugmilljóna tjón varð vegna skriðufalla og vatnsflóða, rýma varð um 70 hús og 200 íbúar urðu að yfirgefa hús sín.
Ólafsfirðingar stóðu saman sem einn maður og mikill samhugur ríkti við að hreinsa upp og lagfæra skaðann eftir aurskriðurnar.
Við Tjarnarborg er nú uppi myndasafn á vegum Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar, má þar sjá ljósmyndir sem Svavar B. Magnússon tók af ummerkjum skriðanna og vinnunni við að koma öllu í samt lag eftir þær. Ljósmyndari Trölla.is fór og tók meðfylgjandi myndir frá sýningunni.
Í fréttablaðinu Degi, Akureyri frá 30. ágúst 1988 mátti finna eftirfarandi frétt frá þessum hamförum.
Tvær aurskriður féllu úr Tindaöxl á byggðina í Ólafsfirði á sunnudag, í kjölfar mikilla rigninga þar um helgina. Flytja varð fólk úr um 70 húsum á brekkunni og koma því fyrir annars staðar í bænum. Ólafsfirðingar muna ekki aðra eins úrkomu en um tíma var 35-40 cm vatnslag á götum í firðinum.
Jón Halldórsson stendur við hús sitt en hann var svo óheppinn að fá tvo bíla inn í garð sinn sem bárust með aurnum.
Ekki hafa orðið slys á fólki í þessum ósköpum en ljóst að um gífurlegt eignatjón er að ræða, bæði á húseignum og bifreiðum.
„Fyrri skriðan fór af stað um kl. 15.30 á sunnudag en sú seinni um kl. 18.45 en auk þess voru að alla skriður allan daginn, sem ekki náðu í bæinn,” sagði Guðbjörn Arngrímsson í Ólafsfirði samtali við Dag í gær.
Nokkrir bílar lentu í fyrri skriðunni og tveir þeirra bárust með henni af efstu götunni og niður á þá næstu. Það var þrennt í öðrum þeirra en þau sluppu án meiðsla.
Það féll einnig skriða á Múlaveginn á móts við Brimnesána og lenti á bíl. Hann fór með skriðunni fram af veginum og var mesta mildi að fólkið í honum skyldi sleppa án meiðsla.” Guðbjörn sagði að byrjað hefði að rigna á laugardag en ekki hafi verið um hættuástand að ræða fyrr en á sunnudagsmorgun.
„Almannavarnanefnd var kölluð saman eftir hádegi á sunnudag og hún var einmitt á fundi þegar fyrri skriðan féll. Þá var björgunarsveitin komin af stað til þess að hjálpa fólki að dæla vatni úr kjöllurum sínum.” Ástandið hefur verið kannað örlítið eftir því sem hægt er en vegna veðurskilyrða hafa menn ekki hætt sér að ráði í fjallið ennþá en vitað er að það er á iði. Það hætti að rigna á sunnudagskvöld en því er spáð að það eigi eftir að rigna meira á næstunni og því gætu fleiri skriður farið af stað.
Múlinn er lokaður og skemmdir þar verða ekki kannaðar fyrr en þessu rigningarástandi lýkur. Hins vegar var stefnt að því að opna Lágheiðina í gær en þar fór ræsi í sundur. -KK
Hér má sjá fréttir nokkurra dagblaða frá hamförunum.
Morgunblað: Sjá hér
Morgunblað: Sjá hér
Morgunblað: Sjá hér
Dagblaðið Vísir: Sjá hér
Tíminn: Sjá hér
Þjóðviljinn: Sjá hér
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir