Við vekjum athygli á tilkynningu Lögreglunnar á Austurlandi, um mann eða menn sem fóru þar inn í hús og stálu fjármunum. Lýsing á grunuðum er í tilkynningunni.
Svipað mál kom upp á Húsavík í gær og ekki útilokað að tengsl séu þarna á milli. Við biðjum því fólk að hafa augun opin og tilkynna strax grunsamlegar mannaferðir til lögreglu.

Lögreglan á Austurlandi

Lögreglan á Austurlandi hefur enn ekki haft upp á aðilum sem virðast hafa verið á ferð í Neskaupstað og Eskifirði í dag þrátt fyrir mikla leit. Vitað er að í einu húsi á Eskifirði náðu þeir að stela fjármunum.
Lögreglan hefur fengið lýsingu á þeim aðila sem þar var að verki en það var karlmaður á milli 30 og 40 ára með dökkt vel snyrt skegg. Hann var talinn u.þ.b. 180 cm á hæð með brúnan bakpoka og í léttum dökkum jakka. Fram kom að viðkomandi hafi talað ensku en að sögn tilkynnanda taldi hann viðkomandi ekki vera frá enskumælandi landi.

Einnig hefur lögreglan fengið lýsingu á öðrum aðila sem bankaði upp á hjá fólki á svæðinu og var þar um að ræða karlmann á milli 30 og 40 ára, meðal maður á hæð í bláum jakka (regnjakka) með bláleitan bakpoka.

Lögreglan biður fólk að hafa í huga að í sumar hafi verið farið inn í hús víða um land og verðmætum stolið. Einkenni þessa hefur verið að aðilar fara inn í ólæst hús og hefur þetta verið að gerast yfir daginn, það er þegar fólk er vanalega til vinnu.

Það sem þessir aðilar virðast gera er að þeir reyna að fara þar sem engir eru heima, banka en fara inn ef engir koma til dyra og hús eru ólæst. Þeir eru einnig tilbúnir með einhverjar skýringar þegar fólk er heima og kemur að þeim, eins og að spyrja um gistingu eða jafnvel nefna einhver nöfn erlendra aðila og þá hvort viðkomandi búi ekki hér.

Lögreglan telur líkur á að viðkomandi aðilar séu enn á svæðinu, það er hér á Austurlandi, og biður fólk að hafa það í huga.

Lögreglan vill beina þeim tilmælum til fólks að ef það verður vart við grunsamlegar mannaferðir að láta lögreglu strax vita með því að hringja í 1.1.2.

Einnig vill lögregla beina því til seljenda gistingar á svæðinu að hafa þessar lýsingar í huga.

 

Mynd:  Kristín Sigurjónsdóttir
Frétt: Lögreglan á Norðurlandi vestra