Eins og sagt var frá hér á Trölla.is fyrr á þessu ári voru stiklusteinar fluttir með snjóbíl að Möðruvöllum í Héðinsfirði:

Stiklur til Héðinsfjarðar

Fyrir þessari framkvæmd stóð Tinna Gunnarsdóttir prófessor í vöruhönnun við Listaháskólann. Nú fyrir skemmstu, þann 1. ágúst, vígði hún þetta verk sitt og smellti þá mynd af viðstöddum. 
Þess ber að geta að Tinna er ásamt fjölskyldu sinni eigandi að jörðinni Möðruvöllum þar sem Stórilækur rennur um og verður tíðum mikill farartálmi í vatnavöxtum.

Tinna var spurð hvernig hún útskýrði stiklusteinaverkið.

„Praktískt séð “brúa” stiklurnar Stóralæk sem áður þurfti að vaða og opna þar með dalinn fyrir gestum og gangandi. Á huglægari nótum er ég að vinna með samband manns og umhverfis. Ég valdi að vinna með íslenskt grjót en langaði til að móta það á þann hátt að augljóst væri að um mannlegt inngrip væri að ræða. Stiklurnar eru því blanda af náttúrulegum og mannlegum ferlum. Íslenskt grágrýtið fór í gegnum fjölbreytt vinnslustig hefðbundinnar steinsmiðju en þó sést líka í lífræn og veðurbarin form upprunalega steinsins sem stiklurnar fimm eru smíðaðar úr. Þessu ferli ásamt flutningi og innsetningu stiklanna í Stóralæk eru gerð skil í vídeóinu. Þar sést jafnframt hversu margar hendur, hugvit, tæki og tól komu að verkefninu. 

Mig langar sérstaklega til að þakka Guðna Sveinssyni í Himnaríki og hans félögum sem sá um flutninga steinanna á snjó í mars síðastliðnum sem og öllum þeim sem lögðu verkefninu lið í einu eða öðru formi.

Vídeómyndir sýna framvindu verksins: https://vimeo.com/585772462

Tinna stikar yfir Stóralæk – ljósm: Sigtryggur Bjarni Baldvinsson

Ennfremur má finna þessa lýsingu á stikluverkefni Tinnu: 

Stiklur fyrir Héðinsfjörð er hluti af doktorsverkefni Tinnu sem ber vinnutitilinn Snert á landslagi. Þar beinir Tinna sjónum að fagurferðilegri upplifun í landslagi. Þungamiðja verkefnisins er tilviksrannsókn í Héðinsfirði á Tröllaskaga þar sem tilraunir eru gerðar með hönnunardrifið inngrip í formi hluta og viðburða. Þó svo fjörðurinn hafi verið í byggð, með hléum þó, frá landnámi til ársins 1951 þá komst hann ekki í vegasamband fyrr en árið 2010 með opnun Héðinsfjarðaganga. Staðurinn sem slíkur er því að ganga í gegnum ákveðin umskipti því að fram að þeim tíma var hann hulinn sjónum flestra enda umgirtur snarbröttum fjöllum og ólgandi hafi. Héðinsfjörður er allt í senn tilkomumikill og hversdagslegur, grófur og fíngerður, aðlaðandi og fráhrindandi. Í honum blunda fjölbreyttir möguleikar, en hverjir ætla að njóta þeirra og hvernig verður það gert? Hvaða áhrif hefur vegurinn sem nú þverar fjörðinn á framtíð staðarins? Og síðast en ekki síst, hvernig getur fagurferðileg upplifun í landslagi styrkt umhverfisvitund okkar?