Skráningu er lokið á skíðagöngunámskeið sem stýrihópur um heilsueflandi Fjallabyggð stendur fyrir í góðu samstarfi við skíðafélögin í Fjallabyggð. 

Fyrirhugað er að halda tvö skíðagöngunámskeið, í Ólafsfirði 7.-9. janúar og á Siglufirði 10.-13. janúar. Þátttaka fer fram úr björtustu vonum en um 40 þátttakendur eru skráðir á hvort námskeið. Skíðaþjálfarar frá skíðafélögunum sjá um kennsluna og verður kennt í 10-13 manna hópum. 

Stefnt er að því að námskeiðið í Ólafsfirði hefjist í dag, föstudaginn 7. janúar kl. 17:00 og er mæting við knattspyrnuvöllinn í Ólafsfirði. Þátttakendur hafa fengið tölvupóst frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar um nánara fyrirkomulag og útbúnað. Ef þátttakendur þurfa að fá skíðaútbúnað leigðan er bent á að hafa samband við Skíðafélag Ólafsfjarðar. Enn er óvíst um hvort nægur snjór sé til að hægt verði að keyra námskeiðið af stað en komi til frestunar munu þátttakendur fá tilkynningu um það eftir hádegi á morgun föstudag. 

Skíðagöngunámskeiðið á Siglufirði er svo fyrirhugað dagana 10., 12. og 13. janúar. Nánari tímasetningar þegar nær dregur. Það er sama upp á teningnum þar. Mögulegt snjóleysi gæti haft óhjákvæmilega frestun námskeiðs í för með sér. 

Mynd/ skjáskot úr drónamynd Magnúsar G. Ólafssonar