Það fór ekki fram hjá Trölla.is að skútan Panorama kom við á Siglufirði í gær í dásemdar veðri.
Skútan M/S Panorama og kemur frá Grikklandi og er 54 metrar að lengd og var byggð 1993, 50 farþegar eru um borð og koma flestir frá Bandaríkjunum, ásamt 17 manna áhöfn. Skútan er öll hin glæsilegasta og búa farþegar við algjöran lúxus um borð.
Panorama hefur verið að sigla hringinn í kringum Ísland síðan í maí og mun halda áfram þangað til í september. Skútan stoppar reglulega á Akureyri, Ísafirði, Patreksfirði, Akranesi og Reykjavík.
Hringurinn tekur um viku og hefur skútan lent í allskonar veðrum en farþegar truflast lítið vegna stærðar og stöðugleika skútunnar.
Frétt og mynd: Kristín Sigurjónsdóttir