Það er kannski vel við hæfi að þessi sunnudagspistill sé söguspjall um kirkjur, núna þegar við um páska megum ekki hittast þar eins og venjulega á þessum Coróna vírus dögum.

„Vá! Af hverju eru þið með svona risastóra kirkju í þessum litla bæ og svo er hún líka svo glæsilega staðsett, sést úr öllum áttum og gnæfir yfir Aðalgötunni?“

Þessa spurningu hef ég oft fengið frá ferðafólki á Siglufirði og svarið og sannleikurinn á bak við hann er falinn í framtíðatrúnni og metnaðinum sem tilheyrði síldarsögunni sem nú sést ekki lengur.

En þegar ég sjálfur er ferðamaður í sjávarþorpum á vesturströnd Svíþjóðar í leit minni að síldarsögum sem tengjast mínum fagra Siglufirði get ég ekki að því gert að ég verð oft mjög svo forvitinn um einmitt kirkjuna í bænum
og í huga mér koma upp allskyns spurningar.

 Af hverju stendur þessi risastóra kirkja akkúrat þarna og ekki í miðbænum í þessum litla samfélagi ?
Af hverju snýr hún svona norður/suður og ekki austur/vestur ?
Mega kirkjur snúa hvernig sem er ?

Ég kemst ekki hjá því að bera þær allar saman við kirkjuna mína á Sigló en hennar sögu kann ég vel. Skírður og fermdur þarna í þessu “í dag” of stóra fallega Guðshúsi og svo man ég þann tíma líka þar sem ég var í sjóvinnuskóla uppi á kirkjuloftinu.

Siglufjarðarkirkja snýr “RÉTT”
Séð upp Aðalgötuna, í vesturendanum blasir við risastór kirkja og í austurendanum söltunarplan og glæsilegur hraðbátur við bryggju.

En kirkjur eru ekki bara sumarbústaður Guðs….

…. á sunnudögum því þær eru líka hjarta bæjarlífsins, byggingin sem allir geta safnast og sameinast í þrátt fyrir ólíka pólitíska hugmyndfræði um hvernig best sé að lifa lífinu.  

Þessi saga fjallar að mestu leiti um kirkjuna í Lysekil sem rétt eins og kirkjan okkar á Sigló á hún sér merkilega sögu en hún var vígð 1901 rétt fyrir lok síðasta síldveiðitímabils Svíþjóðar (1877-1906) þar sem síldin óð árlega í miklu magni inn í skerjagarðinn.

Kirkjan er það fyrsta sem þú sérð hvort sem þú nálgast Lysekil frá sjó eða landi.
Hún er samlit klettinum sem hún stendur á, hæsti punktur bæjarins og byggingarefnið sótt í grjótnámu í nágrenninu.
En hún stendur ekki í miðbænum og hún snýr í norður/suður og breiðir andlits ásýnu sína yfir miðbæinn og það gefur umhverfinu glæsilegan stórborgarblæ.

Þessi fallega kirkja stendur upp á kletti og gnæfir yfir miðbæjartorginu.

Og rétt eins og á Siglufirði var rifist um hvar þessi glæsibygging og stolt bæjarins ætti að standa í Lysekil.

Séra Bjarni Þorsteinsson vildi að sín Siglufjarðarkirkja ætti að sjálfsögðu standa á miðri eyrinni í hans glæsilega miðbæjarskipulagi en þar voru uppi efasemdir um hvort það væri hreinlega pláss fyrir hana þar, hann fékk nú reyndar aldrei að sjá kirkjuna sína þar sem hún stendur í dag en það eru flestir sammála um að þetta sé nú allt saman mjög svo stórborgarlega glæsilegt.

Kirkjur og önnur Guðshús eru yfirleitt pólitískt hlutlausar en samt hafa allir skoðanir um þær  

En þrátt fyrir pólitískan hita í Lysekil um bæði stærð og staðsetningu kirkjunnar var að lokum komist að samkomulagi að byggja út frá „minni“  tillögunni sem gat hýst 1.500 manns í staðinn fyrir 2000, en það var hreinlega ekki til staðar pláss fyrir þessa “STÓRU”.

Og hún varð þar fyrir utan að snúa norður/suður og ekki austur/vestur eins og hefð er fyrir.

Til gamans má geta þegar minnst er á pólitískan hita að rétt eins og Siglufjörður þá skapaðist Lysekil útfrá nálægð við síldarmiðin og vegna þess að akkúrat þarna voru hafnaraðstæður góðar.

Barátta verkafólks fyrir bættum lífskjörum var þar oft hörð og enn í dag eru 2 fulltrúar úr eitilhörðum Kommúnistaflokki Lysekil í bæjarstjórn.  

Arkitektúr sem sameinar og skapar tilfinningu

Kirkjan er byggð í nýklassískum „Goth-stíl“ og öll innréttuð í þá „nýtískulegum Jungendstíl“ en seinna voru gerðar ýmsar breytingar kringum bæði 1920 og 1930 og í dag tekur hún um 1.300 manns í sæti.

Þessi kirkja er einstaklega glæsileg jafnt að utan sem innan. Minnir mig einna helst á kaþólskar kirkjur og ég veit ekki hvort þú lesandi góður hefur tekið eftir því að það er reyndar heilmikil sálfræði hugsun lögð í kirkjuhönnun.

Allt gert til að skapa ró í sál og líkama og þetta sést best í þeirri „samhverfu“ eða speglun ... (symmetry= in everyday language refers to a sense of harmonious and beautiful proportion and balance.)

…. sem er svo róandi og þægileg fyrir manneskjuaugun að horfa á.

Bogadregnar fallegar hvelfingarlínur ramma inn skrautmuni og altari.
Ef eittvað fallegt er til hægri þá er eitthvað líkt og álíka fallegt til vinstri líka.

Það er sem sagt kannski ekki bara löng ræða prestsins sem fær þig til að vilja sofna… en reyndar eru bekkirnir í öllum kirkjum greinilega hannaðir til að mótverka þessa svefnró sem færist yfir mann en við skulum ekki vera að klaga því að í mörgum Rússneskum kirkjum er maður látinn standa upp á endann alla messuna.

Eins og sálmur úr steini

Sem dæmi um þá miklu bjartsýni, framtíðatrú og metnað sem ríkti þegar fyrsta skóflustungan var tekin á klettinum í Lysekil 1899 sagði biskup Ullman meðal annars með orðum sem minna mig á þrumuræður Gústa Guðsmanns á Torginu í denn:

„…kirkjan sjálf á að standa þarna sem sjálfstæð predikun og sem sálmur úr STEINI um heilagleikann og kraftinn í  Guðs orði.“

Hvar vill Guð að kirkjan sé staðsett?

Rétt eins og í skáldsögu Hallgríms Helgasonar „60 kg af sólskyni“ þar sem kirkja Segulfjarðar fauk í heilu lagi út á fjörð með gamlan klikkaðan karl um borð þá eru til álíka skrítnar sögur í Lysekil um staðsetningarvandamál og fjúkandi kirkjuturna o.fl.

Þessi glæsilega kirkja er sú þriðja í röðinni sem er byggð í Lysekil.

En þegar verið var að reisa timburgrindina af þeirri fyrstu líklega um fimmtáhundruð… og súrkál….  þá segir sagan að grindin sem var reist yfir daginn hrundi saman nóttina eftir.
Þetta gerðist aftur og aftur að næturlagi og þá komust menn að þeirri niðurstöðu að GUÐ væri ekki sáttur við þessa staðsetningu.

Var þá ákveðið að setja allt timbur á hestakerrur og að hestarnir væru sjálfir látnir ráða för og kirkja yrði reist þar sem þeim þóknaðist að stoppa fyrst.

Hestarnir drógu byggingarefni niður í litla fallega vík og stoppuðu á miðju grænu túni sem var þar og heitir þessi vík þar eftir alla tíð Kirkjuvík.

Kirkjuturninn er 63 metrar á hæð með tvo minni hliðarturna sér til aðstoðar og það er klukkuskífa á öllum fjórum hliðum.

Enginn síld og þar af leiðandi enginn kirkjuturn í áratugi

Sagan segir líka að kirkjuturninn á kirkju númer tvö fauk í ofsafegnum vestanvindastormi veturinn 1817 en þá var allt í volæði og niðurníðslu í bænum vegna þess að síldin hafði horfið frá vesturströndinni 1809 en þá lauk hinu svokallaða „stóra síldveiðitímabili“ (1747-1809) svo menn höfðu hreinlega ekki efni á að laga kirkjuturninn fyrr en eftir 1840.

Kirkjuturninn á nýju kirkjunni átti fyrst að verða 68 metra hár en af veðurfars ástæðum var hann lækkaður niður í 63 metra en það dugði ekki til því sjálfur þakhatturinn fauk af í ofsaverðri 1913 og svo aftur með verulegum skemmdum á sjálfum turninum 1914.  

Hér getur vestanáttin verið jafn djöfullega kröftug eins og norðanáttin á Sigló.

Ljósmyndirnar hér undir tala sínu eigin máli en ég vill sérstaklega vekja athygli ykkar á fallega myndskreyttum gluggum og öðru sem segja atvinnusögu Lyskil og margar tengjast þeirri staðreynd að hafið bæði gefur og tekur.

Lifið heil og gleðilega páska.
Kveðja, Nonni Björgvins

Móðir og sonur bíða á bryggjunni

Þetta risaorgel er svo stórt og rándýrt að það var ekki fullbúið fyrr en 1917.
Hönnuður er hinn frægi Eskil Lundén.




Predikunarstóllinn er frá 1670 og kemur upprunalega frá Christinae kirkjunni í Gautaborg

Biblíusaga og fiskveiðar
Landbúnaður
Grótnámuiðnaður
Skipasmíði

Ljósmyndir og texti:
Jón Ólafur Björgvinsson

Heimildir fengnar úr munnlegum samræðum og úr bæklingnum “Välkommen till Lysekils kyrka.” og frá Wikipedia.

Meira um Lysekil, sjá eldri greinar á siglo.is

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! Lysekil (25 myndir)

Ferðasaga: Siglfirsk síldarsaga í Smögen og Kungshamn. 25 myndir

Heimsókn í annan gamlan síldveiðibæ.

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

og meira um Lysekil á trolli.is

DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

Aðrir pistlar og greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson á trolli.is