Fimmtudaginn 6. desember kl. 16.00 -22.00 opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir málverkasýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Verkin eru unnin í vinnustofudvöl í Svorbæk í Danmörku á haustdögum og bera yfirskriftina frjó.
Sýningin er opin út næstu helgi og virka daga kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti. til 21. des.
Ár hvert hefur skapast sú hefð að Aðalheiður setur upp nýjustu verk sín í galleríinu sem eru þá oft á tilraunastigi. Þannig gefur hún áhorfendum innsýn í þróunarferli listsköpunar og um leið opnar hún fyrir samtal um það efni.
Aðalheiður segir um verkin.
Undanfarin ár hef ég hugsað töluvert um fegurðina sem fylgir hverju lífi sem kviknar og frjósemina sem ber það síðan áfram blóm frá blómi, mann fram af manni. Blóm birtast okkur í öllum regnbogans litum og ótrúlegustu formum, og gefa sköpunarkraftinum byr undir báða vængi. Í þessum tilraunum um málverk , flæða litir og form í frjálsum farvegi og mynda frjósemi og erotik sem er undirrót alls lífs.