Oddviti Sjálfstæðismanna í NA kjördæmi, Njáll Trausti Friðbertsson, og einn frambjóðandi listans, Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir, skrifuðu nýlega grein um samgöngumál í Fjallabyggð og birtu á héðinsfjörður.is og Tölli.is

Mig rak eiginlega í rogastans þegar ég las greinina og þess vegna get ég ekki annað en sest niður og fært á blað örfáar athugasemdir um hana.

Er það virkilega tillaga og stefna Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar að leysa samgönguvanda Siglfirðinga, Ólafsfirðinga, Dalvíkinga og annarra íbúa við utanverðan Eyjafjörð í vesturátt um Fljót og Skagafjörð með nýjum jarðgöngum milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur eins og þau boða sem stefnu sína í greininni, eða eins og þau segja:

“Strákagöng og Skriðurnar standast ekki nútímakröfur. Um það eru fagmenn sem og leikmenn sammála. Þessar ófærur kalla á ný göng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, enda þekkja allir að Múlagöng eru barn síns tíma.” 

Tilvitnun lýkur.

Athugið þau fjalla ekkert um væntanleg jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta í þessari grein sinni.

Þau tala um að Strákagöng og Skriðurnar (eiga líklega við Mánárskriður) standist ekki nútímakröfur, sem er alveg hárrétt en það gera Almenningarnir ekki heldur þar sem viðvarandi jarðsig er og hefur verið um langa tíð, jarðsig sem hættir ekki og eykst frekar ef eitthvað er. 

Rétt er líka að minna á tíðar og margar lokanir vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi alveg frá Ketilási og til Siglufjarðar og að innkeyrslan til Siglufjarðar fer um þröngar íbúagötur bæjarins, sem ekki anna þeirri miklu umferð sem fer um bæinn vegna tilkomu Héðinsfjarðarganga.

Vegagerðin hefur sagt í skýrslum sínum að úr þessu verði ekki bætt nema með nýjum jarðgöngum frá Siglufirði og yfir í Fljót – 
5 km löng göng, sem stytta þessa leið um 16 km. 

Fjallað hefur verið um þessi jarðgöng í að a.m.k. þremur síðustu Samgönguáætlunum og veitt fé til undirbúningsrannsókna, sem m.a. gaf af sér skoðun og skýrslu Vegagerðarinnar, þar sem þessi tillaga er ítrekuð, og staðarval meira að segja nefnt þ.e. úr Hólsdal yfir í Fljótin.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, en ekki breikka núverandi Múlagöng eins og stundum er talað um.

Það er ekki nútímaleg vegagerð og leysir ekki þann vanda sem af núverandi Múlavegi hlýst. En taka þarf þetta í réttri röð m.v. samþykktir Alþings um forgangsröðun jarðganga í samgönguáætlun og tillögur Vegagerðarinnar. Einungis þannig verður komið í veg fyrir að þessir þrír staðir lendi aftur sem endastöðvar ef vegurinn um Almenninga verður varanlega ófær og lokast.

Þess vegna vil ég spyrja oddvita Sjálfstæðisflokksins, Njál Trausta Friðbertsson, um eftirfarandi:

Er þetta virkilega tillaga ykkar Sjálfstæðismanna um forgangsröðun jarðgangaframkvæmda við utanverðan Tröllaskaga, þ.e. að leysa af hólmi veginn um Almenninga með göngum milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur?

Kristján L. Möller, fyrrverandi alþingismaður Norðausturkjördæmis og Samgönguráðherra.