Heimildarsíða Steingríms Kristinssonar er full af heimildum, fróðleik, myndum og skemmtilegheitum frá því á árum áður á Siglufirði.
Hér að neðan er frásögn af því þegar ritstjóri Siglfirðings er sagður hafa selt sannfæringu sína fyrir 60 krónur og hefur án vafa verið heitt í kolunum í pólitíkinni hér í denn.
Thorarensen kaupir upplag síðasta “Siglfirðings”.
Neisti, þriðjudaginn 13. ágúst 1935
Ritstjóri Siglfirðings selur sannfæringu sína fyrir sextíu krónur:
Íhaldsritstjórinn Sigurður Björgúlfsson skrifaði í síðasta “Siglfirðing” mjög skáldlega og um leið meinleysislega ádeilugrein á kaffihúsa- og skemmtanalífið hér í bænum.
Grein þessi, þó meinlaus sé, fór þó það herfilega í taugarnar á Hinrik Thorarensen, að hann keypti blaðið upp til þess að greinin kæmi ekki fyrir almenningssjónir, hefir auðsjáanlega búist við, að greinin hefði þau áhrif, að fólk sæi að sér, og kæmi ekki eins mikið, eftir sem áður, á kaffisjoppur hans.
Eins-og kunnugt er, á “alt mulig manden”, Hinrik Thorarensen flest kaffihúsin hér á Siglufirði.
Thorarensen var með þeim fyrstu sem fékk að sjá blaðið með grein þessari, og fór hann þá strax til S B. ritstjóra og fékk hann til þess að taka greinina út úr blaðinu, gegn því að hann (Thorarensen), léti bíóauglýsingar í staðinn. Sannfæring ritstjóra var ekki meiri en svo, að hann seldi grein út úr blaðinu, grein sem átti að vera aðvörun við glötun, og tekur í þess stað í blaðið auglýsingar sem eiga að ginna fólk til þess að sækja þá staði sem áðurnefnd grein varaði við, og var ritstjórinn þó búinn að sýna nokkrum mönnum greinarkornið, og var að monta sig yfir því að nú mundi “Siglfirðing” verða veitt athygli næst og varð aumingja manninum að spá sinni, en bara nokkuð á annan veg en hann bjóst við.
Eins og öllum er vitanlegt er Hinrik Thorarensen sá maðurinn hér á Siglufirði, sem hefir úti öll net, til þess að ná í þessa fáu aura sem verkafólk innvinnur sér hér yfir atvinnutímann, og er fullkomin þörf á, að athugað sé, hvort ekki sé ástæða til, að loka einhverjum af þessum “sjoppum” Thorarensen.
Atvinnuleysi er hér afar mikið, sem eðlileg afleiðing af síldarleysinu, og virðist vera að fólki veiti ekki af þeim fáu aurum sem það innvinnur sér til nauðsynlegustu lífsþarfa og ætti að gjöra þá kröfu til forráðamanna bæjarins, að þeir létu ekki algjörlega afskiptalaust að einum manni líðist að “plokka” af verkafólki það sem það inn vinnur sér, jafnvel þó ekki sé hægt að sanna, að hann fari út fyrir ramma hinna almennu viðskiptalega.
Fyrir utan það, að H. Th. rekur hér 2-3 kaffihús, er einnig á hans höndum og í hans eign það eina kvikmyndahús sem hér er í bænum.
Kvikmyndahús þetta er eingöngu rekið sem gróðafyrirtæki en ekki sem menningartæki.
Flestallar myndir sem hingað koma eru nauða ómerkilegar að efni, venjulega illa sýndar sem er og engin furða. þegar litið er á, að myndirnar eru slitnar og gamlar þegar þær koma hingað, en náttúrlega eru þær þá líka ódýrar.
En þrátt fyrir það, að hingað koma sem sagt ódýrar myndir, mun óvíða aðgangur seldur eins dýrt og hér. Þegar tekið er tillit til þess, að sýningar eru aldrei færri en tvær og stundum fjórar á dag, þá er ekki nokkur vafi á því, að óhemju gróða hlýtur Thorarensen að hafa af þessu fyrirtæki sinu.
Það verður að gera þá kröfu til bæjarstjórnar, að sýningarleyfið verði tekið af Thorarensen, og að bærinn taki að sér rekstur á kvikmyndahúsi og allt kapp sé lagt á, að það geti orðið bæjarbúum til yndis og menningarauka.
Reynt mun verða, að kryfja það mál til mergjar, hvernig stendur á því, að það virðist vera svo, sem bæjarfógeti og yfirleitt forráðamenn bæjarins hafi veitt Thorarensen sérleyfisaðstöðu til skemmtihúsa- og kvikmyndareksturs.
Ekki er hægt að enda svo grein þessa, að ekki sé aðeins minnst eitthvað frekar á vesalmennsku ritstjóra Siglfirðings.
Sigurður Björgólfsson ritstjóri “Siglfirðings” er kennari hér við barnaskólann og samkvæmt stöðu sinni ber honum að vara börnin og unglingana við öllum freistingum sem til glötunar leiða, andlega sem líkamlega og verður maður að álíta að það hafi verið kennarinn í Siglufirði sem reit umrædda grein þá, sem fór svo herfilega í taugarnar á H. Thorarensen.
Sigurður var þarna að gegna skyldu sinni með því, að vara unglingana við þeirri. hættu sem stafar af Kaffihúsalífinu og er slíkt virðingarvert og benti óneitanlega til þess að Sigurður væri að bæta ráð sitt.
En þá kemur freistarinn í mynd H. Th. til ritstjóra íhaldsblaðsins og hótar honum málssókn fyrir atvinnuróg ef greinin verði ekki tekin úr blaðinu, en ritstjórinn veit sem er að greinin er meinleysisleg og að um málssókn geti ekki verið að ræða.
Þegar Thorarensen sér, að ekki dugar að hóta, snýr hann við blaðinu og fer fram á að fá greinina keypta út úr blaðinu, og eftir dálítið þref varð það að samkomulagi, að Sigurður tæki greinarkornið út úr blaðinu, og fengi bíóauglýsingar í staðinn, og það má segja, að þarna kæmu steinar fyrir brauð eða freistingar fyrir fræðslu.
Sigurður var kampagleiður á eftir og þóttist hafa gert þarna góða verslun við Thorarensen og á það náttúrlega að skiljast svo, að Sigurður greyið, þættist fá góða borgun fyrir sannfæringu sína.
það má hiklaust telja að verkamaðurinn og kennarinn Sigurður Björgúlfsson hafði orðið fyrir miklu óláni og álitshnekki í sambandi við þetta mál og getur hann þar um kennt sambandi því sem hann hefur við leiguþýið og ósjálfstæðismanninn Sigurð Björgólfsson, ritstjóra íhaldssnepilsins “Siglfirðingur” og vill “Neisti” gefa kennaranum það ráð að slíta sambandi við ritstjórann áður en meira ólán hlýst af.
Svar þeirra, Hinriks Thorarensen og Sigurðar Björgólfssonar við þessari ádeilu, ásamt umræddri grein er (að sögn ritsjóra) seinkaði birtingu á, vegna auglýsingar.
Svar við óhróðri Jóns Sigurðssonar ritstjóra Neista
Siglfirðingur 13. desember 1930
Svar. (Hinrik Thorarensen)
Í síðasta tölublaði “Neista” skrifar Jón Sigurðsson langa grein um mig og hr. Sigurð Björgólfsson, kennara. Sigurður mun svara fyrir sig, en ég vil ég með nokkrum línum leiðrétta frásögn J. S.
Ég skal taka fram, að aðdróttunum hans og svívirðingum svara ég ekki, lýsir hann best sjálfum sér með slíkum rithætti.
J. S, talar um að ég reki 2-3 kaffihús hér í bæ, og sjálfsagt sé að athuga, hvort ekki sé rétt að loka einhverjum af þessum “sjoppum” mínum.
Ástæðan fyrir því að ég setti upp veitingasölu í “Bristol” var sú, að ekki tókst að leigja plássið út og til þess að hafa upp sem svaraði húsaleigu, lét ég setja þarna veitingar í 3-4 mánuði að sumrinu. Hafa sjómenn oft minnst á við mig hve þægilegt þeim þætti að geta keypt þarna mjólk, öl og tóbak eftir lokunartíma búða og fengið vörurnar með búðarverði.
Á hinn bóginn hefur enginn hagnaður verið af verslun þessari og þegar ég frétti í vor að kaupmenn ýmsir hefðu horn í síðu þessara veitingahúsa, tilkynnti ég bæjarfógeta að ég myndi í haust loka þessari veitingasölu fyrir fullt og allt, þar sem ég sennilega gæti haft leigu upp úr plássinu á annan hátt.
Þá kemur “Turninn”. Eins og mörgum Siglfirðingum mun kunnugt. var reynt að taka lóð mína vestanvert við Kaupfélag Siglfirðinga eignarnámi, og beðið um samþykki bæjarstjórnar til þess. Það var þó fellt, en með jöfnum atkvæðum. Til þess að verja þessa lóð mína, sem ég ekki vildi selja, keypti ég turn þann sem þar stendur og lét flytja hann á lóðina. Leigði ég turninn til veitingasölu í fyrra sumar. En fyrst í vor fór ég að reka þar veitingasölu.
Í vor, þegar hr. Aðalbjörn Pétursson gullsmiður bað mig um turninn á leigu, sagði ég honum, að ég myndi hafa leigt honum turninn ef hann hefði beðið um hann fyrr, en nú væri búið að ráða starfsfólk til haustsins. Svona er nú málinu varið. Og geti ég leigt turninn út, mun ég frekar gera það en að reka þar veitingasölu.
Ágóðinn er nú ekki meiri en þetta. Hr. J. S. þarf því ekki að tala um með mikilmennsku, að rétt væri að loka þessum “sjoppum”, ég mun fúslega gera það að sjálfsdáðum þegar ráðningartími fólksins er útrunninn.
Þá talar Jón um kvikmyndahúsið. Segir hann að myndirnar séu vondar og slitnar af því að ekki sé tímt að greiða nógu háa leigu til að fá góðar myndir. Og að kvikmyndahúsið sé rekið sem gróðafyrirtæki en ekki sem menningartæki, það vill nú svo vel til, að flokksbræður J.S. reka sjálfir kvikmyndahús á Ísafirði (bæjarrekstur). það hlýtur þó að vera rekið sem menningartæki og þar eru þó sjálfsagt sýndar góðar myndir og há myndaleiga greidd. Hugsa ég að J. S. beri ekki á móti þessu.
En nú vil ég skýra almenningi frá, að Akureyri, Siglufjörður og Ísafjörður sýna oftast sömu myndirnar og sama myndaeintakið.
Myndirnar eru sendar frá Reykjavík til Akureyrar, þaðan hingað til Siglufjarðar og héðan til Ísafjarðar.
Séu myndirnar slæmar hér, batna þær sennilega ekki við að fara nokkrum sinnum gegn um sýningarvélarnar hér áður en þær koma til Ísafjarðar. Og ólíklegt er, að sama myndin geti talist góð og menntandi á Ísafirði, en vond og ómöguleg hérna.
Myndaleigan er sú sama hér og á Ísafirði.
Þessi fullyrðing J. S. á heldur ekki við nein rök að styðjast, flestar myndir sem sýndar eru hér eru óskemmdar, og Siglufjarðarbíó (Nýja-Bíó) sýnir ekki lakari myndir en önnur kvikmyndahús hér á landi.
Þá talar J. S. um að óhemju gróði hljóti að vera af rekstri kvikmyndahússins þar sem sýndar séu 2-4 sýningar á dag. Tvær sýningar á dag er aðeins stuttan tíma um hávertíðina.
Á veturna er oft ekki nema tvær sýningar á viku. En það fer ekki eftir sýningarfjölda hve gróðinn er mikill heldur eftir umsetningu. Og oft er hér á Siglufirði, sýnt fyrir svo að segja tómu húsi. Er td. ekki langt síðan að sýnt var fyrir kr. 1,50 – einn aðgöngumiði seldist – , en samt var sýning ekki látin falla niður. Þar sem ég vil ekki gabba fólk, er það regla mín, að auglýst sýning fari fram enda þótt ekki seljist nema 1-2 aðgöngumiðar, eins og oft kemur fyrir.
Hvað gróðanum viðvíkur má halda áfram samanburði á kvikmyndahúsunum á Ísafirði og Siglufirði. Ísafjörður er fólksfleiri bær en Siglufjörður og vertíðartíminn lengra þar en hér. Í íbúatölu Siglufjarðar er talið fólk er býr á Siglunesi, Héðinsfirði og á Dölum – og verður íbúatala bæjarins við það hærri en hún raunverulega er.
Á Ísafirði hefir útkoman orðið sú, að tap hefur verið á rekstri kvikmyndahússins ár eftir ár síðan bærinn fór að reka það. Morgunblaðið flutti einu sinni grein um að Ísafjarðarbíó hafi fengið frest eða jafnvel eftirgjöf á skemmtanaskatti vegna þess að rekstur kvikmyndahússins hafi gengið svo illa, að engir peningar voru til að greiða skattinn með.
Og naut kvikmyndahúsið þó þeirra miklu hlunninda að þurfa ekki að greiða útsvar.
Þessi fullyrðing J. S, um að Siglufjarðarbíó hljóti að stórgræða þegar honum er kunnugt um að Ísafjarðar-Bíó hefir verið með tap, er að minnsta kosti ekki heppileg frá hans pólitíska sjónarhól séð, því hér er hann ósjálfrátt að mæla með einstaklingsframtaki.
Nei, Siglufjarðarbíó er ekki stór tekjulind, eins og J. S. gefur í skyn, og ef rekstri þess væri ekki hagað þannig, að hægt er að sameina mannahald við bíóið og annan verslunarrekstur er ég hefi með höndum myndi útkoman verða lítið skárri en á Ísafirði.
Þá talar J S um að verð aðgöngumiða sé of hátt. Ef til vill er honum ekki kunnugt um, að skemmtanaskattur er 18 % af brúttó umsetningu. Og sömuleiðis veit hann máski ekki, að aðgöngumiðarnir kosta eins mikið á Ísafirði og hér og þar er verð þeirra þó ekki of hátt þar sem kvikmyndahúsið, ber sig ekki með því verði.
H. Thorarensen
—————
Siglfirðingur 13. desember 1930
Skemmtanir og atvinnuleysi. (Sigurður Björgólfsson ritstjóri)
Greinin sem átti að birtast í síðasta Siglfirðing, en vék fyrir auglýsingum, hefir vakið mikið umtal hér í bænum, þó óbirt væri, vegna árásar “Neista” á ritstjóra þessa blaðs og Thorarensen, lækni. og hefir Neisti gert greinina frægari en efni stóðu til í upphafi. Er bæjarbúum mál þetta kunnugt orðið.
Það stóð mikið til fyrir ritstjóra “Neista” síðastlinri þriðjudag. Hann stóð á gatnamótum og tilkynnti lýðnum að nú væri “Neisti” svo magnaður, að ríða mundi “íhaldinu” í þessum bæ að fullu. Vikaliðugir kratar hlupu og hjóluðu heim í húsin að tilkynna gleðiboðskapinn, svo kaupendurnir væru betur undirbúnir er þeim bærist hið magnaða blað.
Sjómaður einn kom þar er ritstjóri stóð.
“Sæll vert þú Jón félagi”, segir hann.
“Sæll vinur” sagði Jón.
“Ég heyri að þú sért orðinn hér ritstjóri og hafir skrifað stóra skammagrein um “íhaldið” hérna”.
„Já, ég er nú heldur á því,” sagði Jón.
“Það verður að láta fólkið vita að íhaldsritstjórinn hérna hefir selt sannfæringuna fyrir sextíu krónur”.
“Auminginn”, sagði maðurinn.
“Þér hefir þótt það lítið. Þú ert víst ekki vanur að selja hana svo vægu verði”.
Jón varð hvumsa við og stakk báðum höndum í rassvasana, rétt eins og hann geymdi þar sem enn væri eftir ólátið af sannfæringu upp í bein og bitlinga Alþýðusambands og ríkisstjórnar.
Má segja að það sé sprenghættulegur staður fyrir svo arðsaman hlut, því talsverður “vindur” er í manninum.
Það er ekki gott fyrir Jón eða aðra stórkrata að vera að brigsla öðrum um sannfæringarverslun, því fáir munu vera hálsliðamýkri en þeir og örlátari á sannfæringu ef bein eru í boði og er það frægt orðið með endemum.
Það er ekki til neins fyrir Jón að telja Siglfirðingum trú um að ritstjóri Siglfirðings selji sannfæringu sína. Það trúir honum enginn.
En Siglfirðingi veitir ekki af auglýsingunum, hann er sem sé hvorki gefinn út af almannafé, og ekki skuldar hann 300 þúsund í Útvegsbankanum og ennþá síður að fátæk alþýða sé pressuð til að halda honum uppi með skatti af þurftarlaunum sínum.
Það er ekki rúm til þess að kvitta frekar fyrir greiðann er “Neisti” gerði ritstjóra Siglfirðings með greininni, enda gerist þess ekki þörf.
Fer greinin umtalaða hér á eftir:
(þessi sem sögð var, hafa verið borgað kr. 60,- til að hún yrði ekki birt)
Það hefir víst vakið athygli flestra, hve óvenju mikið hefir verið hér um kaffihúsalíf, dansleiki opinbera og “klúbba” og ýmsar aðrar aurafrekar lystisemdir fólksins. Þær eru alltaf að fjölga stofnanirnar hérna í bænum, sem gera sér atvinnu úr dansfíkn fólksins. Það vekur einkennilegar og margskonar hugsanir að ganga hér um göturnar stutt fyrir miðnættið (um 11 til 11,1/2) og gægjast inn á dansbúlurnar og kaffihúsin.
Fólkið rennur í þungum straumum eftir götunni. Bíó er að tæmast þetta kvöld.
Í þetta sinn erum við stödd hérna upp hjá Ráðhústorginu þar sem í óljósri hylling gnæfir hið “tilkomandi” ráðhús 4-5-6 hæðir með turni og öllu tilheyrandi. Við sjáum fyrir oss rétthyrndan, sléttan funkisturninn eða þá gulrófuturn eins og þeir tíðkast á Akureyri. En þetta hverfur fljótt.
Veruleikinn blasir við: Fjósin gömlu., skökk og skæld, og risa vaxin hálfgróinn haugurinn suður undan. Sumar fjósbyggingarnar eru nú að hrynja í rúst – hafa að því er sagt er, sligast af hinu sífellda, beljandi mannlega vatnsmagni, er á þeim hefir dunið áratugum saman. Músík og söngur ríður á hlustunum úr 4 stöðum. Píanó snillingurinn í Brúarfossi trakterar hljómborð slaghörpunnar svo undir tekur, hljómsveitin á Bíókaffi hamast, daufur ómur berst út af Bíó, úr hljómvélum kvikmyndahússins og norskur sálmasöngur og organsláttur ómar innan úr Fiskerhjemmet. Úr öllu þessu verður undarlega disharmonisk symfonía, sem minnir á útvarpsklassík.
Undir drynur, eins og brims og fótadráttur unga fólksins á Bíókaffi og Brúarfossi. sem er að kiða sér og aka með dýfum og fettum innan um borðin, sem hlaðin eru venjulegum kaffihúsavistum og sígarettustúfum úr Tóbakseinkasölu ríkisins.
Við göngum lengra og berumst með straumnum. Við mætum fjölda ungra meyja og eldri með yndislega blóðrauðar varir, sem óvart hafa orðið í stærra lagi, og ilmandi púðurlyktin blandast saman við forarlyktina upp úr götunni og fúlu stækjuna sunnan af sandinum.
Allar eru ungu meyjarnar með leðurtuðrur sínar, sennilega með nauðsynlegustu áhöldum: púðri, varalit, naglalakki, augnabrúnalit og fleiri nauðsynjum. Það er áreiðanlega ekki hörgull á innflutningi né gjaldeyri fyrir þessar nauðsynjar.
Hjá Maju eru ungfrúrnar að láta snyrta lokka sína. – Maja á að setja kórónuna á sköpunarverkið, og tekst það prýðilega. Nú fer að berast að eyrum gjallandi músík úr austurátt. Hún berst frá Dettifossi, sem er, fjölsóttasta kaffihúsið, enda eru þar kunnáttumenn að verki, sem draga að sér “kúnnana” eins og segullinn stálið. Besta hljómsveit bæjarins. Þarna er Siglufjarðar “Chat noire”. Vér lítum inn. Hvert sæti er þéttskipað í báðum sölum.
Iðandi kös af kiðandi göngufólki, sem þreytir ganginn aftur og út á hlið og kallar það dans. þarna er mikið ryk eins og annarstaðar. þar sem “dansað” er. Rafmagnsdælan hefir ekki við að ausa út rykinu, sem óumflýjanlega berst inn af götunni og þyrlast upp af hvíldarlausum fótadrætti hinnar “dansandi” kasar.
Hljómsveitin leikur dúndrandi potopurri, sullað saman af ólíklegustu efnum.
En meistaraverkið gengur í fólkið. Það hrífst með og syngur undir og sogar ofan í móð lungun allar þær loftrænu krásir er þarna fást ókeypis. Dansinn er sá sami og allstaðar annarstaðar, sviplaust við vanganudd og mjaðmakið. Hvert par hefir þó sína “aðferð” eftir lundarfari og ástríðum hvers og eins. Er þetta list?
Manni dettur ósjálfrátt í hug kvæðið um kúna og hestinn sem fóru á dansleikinn. Sennilega hefir einhver nútíma-Esóp búið það til.
Kvæðið er svona og mætti sennilega nota það til að kiða sér eftir á kaffihúsi:
“Klárinn dansaði kúna við” – Carioca
“aftur, fram og útá hlið” – Carioca
“Kýrin varð skotin í klárnum strax” – Carioca
“En hvað þú hefur fallegt fax!” – Carioca
“Kýrin sigraði klársins vit” – Carioca
“með vangapúðri og varalit.”- Carioca
“Klárinn fylgdi svo kúnni heim” – Carioca
“Svo er nú sagan af þeim” – Carioca
Vér göngum út og niður á bryggju. Allt er þar í eyði og tómi. Ekkert skrölt, engin köll, engin beykishögg – ekkert líf.
Uppi í bænum streyma síðustu aurar fólksins úr tómum pyngjunum inní danskrárnar, kaffihúsin og bíóið.
Hvað er framundan? Er nokkurt vit í þessu? Hvað fær fólkið fyrir peningana? Hvað miklu er eytt í þetta á hverju kvöldi, eftir að áfengisverslun ríkisins hefir verið opin allan daginn.
Eru engin takmörk fyrir því hve margir mega afla sér fjár á heimsku?
Myndir/af heimildarsíðu Steingríms Kristinssonar