Laugardaginn 2. febrúar sl. var svokallaður Work-shop dagur hjá Karlakór Fjallabyggðar.

Hópurinn hittist og undir stjórn kórstýrunnar voru gerðar tónlistaræfingar af ýmsu tagi sem innihéldu meðal annars alls kyns óhljóð, klöpp og stöpp.

Það er óhætt að segja að mönnum hafi verið hent rækilega út fyrir þægindarammann þann daginn!

Markmiðið með vinnudeginum var að hittast og hafa gaman saman, syngja og vinna að ákveðnum verkefnum. Aðalmarkmiðið var þó að semja saman lag til að flytja á söngskemmtun kórsins í vor.

Vinnan heppnaðist vel og komst hópurinn vel á veg með að klára lagið. “Vinnuheiti lagsins er „Tásur á Tene“ en við eigum enn eftir að fínpússa nokkra hluti hvað það varðar.” Sagði Edda Björk Jónsdóttir kórstýra sem var að vonum ánægð með daginn.

Eddu til halds og traust voru meistararnir Guðmann Sveinsson á gítar og Hörður Ingi Kristjánsson á píanó sem aðstoðuðu kórmenn við að koma hugmyndum sínum á blað og var framlag þeirra ómetanlegt.

Yfir það heila var dagurinn mjög vel lukkaður og er það ályktun hópsins að hafa fleiri work-shop daga í framtíðinni.

Myndir og heimild/ Karlakór Fjallabyggðar