Mikill munur er á breytingum á gjöldum fyrir þjónustu við börn milli sveitarfélaga á tímabilinu frá því að lífskjarasamningarnir tóku gildi til dagsins í dag. Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman breytingar á leikskólagjöldum, skóladagvistunargjöldum og skólamat frá 2019 – 2022 hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins.

Samantektin sýnir að gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hækkuðu mest á tímabilinu hjá Borgarbyggð, um 20,2% eða 5.985 kr. á mánuði en lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, um 19,9% eða 4.914 kr. á mánuði. Leikskólagjöld hækkuðu mest hjá Seltjarnarnesbæ, um 24,2% eða 6.590 kr. á mánuði en lækkuðu mest hjá Mosfellsbæ, um 10,6% eða 3.428 kr. á mánuði.

Ef samanlögð gjöld fyrir þjónustu fyrir börn hjá vísitölufjölskyldu eru skoðuð, þ.e. gjöld hjá fjölskyldu með eitt barn á grunnskólaaldri í skóladagvistun og skólamat og eitt barn í leikskóla, má sjá að þau hafa hækkað mest hjá Seltjarnarnesbæ, um 21,6% eða 139.117 kr. á ári. Hjá Fjarðabyggð hafa sömu gjöld hins vegar lækkað um 8,5% eða 50.903 kr. á ári.

Forsendur: Miðað er við samanlögð gjöld fyrir skóladagvistun (þrír tímar á dag), með síðdegishressingu og skólamat fyrir grunnskólabarn og átta tíma vistun á leikskóla m. fæði fyrir barn á leikskóla.

Gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hækka mest í Borgarbyggð en lækka mest í Fjarðabyggð
Samanlögð gjöld fyrir þjónustu fyrir barn á grunnskólaaldri, skóladagvistun með síðdegishressingu og skólamat, hækkuðu í 13 sveitarfélögum af 15 frá 2019-2022, um 0,2-20,2%. Hlutfallslega hækkuðu heildargjöld mest hjá Borgarbyggð, 20,2% eða um 5.985 kr. á mánuði. Það gerir 53.865 kr. á ári m.v. 9 mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Seltjarnarnesbæ, 19,3% eða 7.403 kr. á mánuði sem er mesta hækkun í krónum talið, 66.627 kr. á ári. Gjöldin lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, 19,9% eða um 4.914 kr. á mánuði sem gerir 44.226 kr. á ári.

Sjá nánar