Það var komin helgi og við meðlimirnir í hljómsveitinni Frum ásamt rótaranum okkar Óskari Elefsen og fleiri krökkum sátum inni í Glaumbæ, æfingarhúsnæðinu okkar við Lindargötu og vorum flest að sulla í einhverri ólyfjan.

Ekki gátu allir fjármagnað kaup á alvöru veigum úr ÁTVR svo einhverjir höfðu eins og svo oft á þessum árum, farið í apótekið og keypt mentólspritt. Við höfðum nefnilega eftir að hafa gert svolitlar tilraunir með mentólsprittið fundið út að með því að blanda því í réttum hlutföllum í malt þá var það hreint ekki svo galinn mjöður. Það var bara vel drykkjarhæft og sumum fannst það jafnvel líkjast bragðgóðum kokteil sem einhverjir þýða þráðbeint upp á ylhýra sem kokdilli. Þegar leið að miðnætti datt einhverjum í hug að kíkja á bæjarlífið og hópurinn yfirgaf aðalstöðvarnar og hélt af stað.

Þetta var eitt af þessum mildu og hlýju síðkvöldum þegar varla bærist hár á höfði og það er aðeins hægur sunnan þeyrinn sem strýkur létt um kinn og pollurinn er eins og spegill þar sem fjöllin austan fjarðar standa á haus. Siglfirskara getur það ekki orðið og manni finnst stundum að svona dulúðlegt og dreymandi draumaland geti hvergi annars staðar verið til í öllum heiminum.

Það er aðeins tekið að rökkva aftur því síðsumarið var í nánd og það var gaman að vera til. Við gengum niður Aðalgötuna en þar var lítið að gerast svo við héldum áfram og hópurinn stefndi sennilega meira ómeðvitað en meðvitað niður á eitt aðal leiksvæði og samkomustað unglinganna í suðurbænum. Það var auðvitað kaðallinn á löndunarkrana Rauðkuverksmiðjunnar sem heillaði og þegar við nálguðumst svæðið fóru einhverjir að greikka sporið því það gat aðeins einn sveiflað sér í einu og hver vildi ekki verða fyrstur.

Þegar við komum niður eftir var enginn á bryggjunni en kaðallinn hékk letilega þráðbeint niður og það var engu líkara en að hann væri að hvíla sig fyrir þau átök sem í vændum væru. Þeir sem komu fyrstir fram á bryggjusporðinn horfðu vandræðalega á kaðalinn því á þriðja metra var að honum frá bryggjukantinum. Það þurfti því helst að reyna að krækja í hann með einhverju móti en ekkert áhald var þarna nálægt sem mætti nota til slíkra hluta.

Óskar Berg Elefsen Ljósmynd af Óskari: Steingrímur, © Ljósmyndasafni Siglufjarðar

Það er því ekki fyrr en Óskar kemur aðvífandi að eitthvað fer að gerast. Hann hefur ef til vill verið búinn að setja ofan í sig eitthvað meira mentólspritt en við hin eða kannski var hann bara áræðnari en við hin, því ég hef sjaldan séð hann svalari en þegar hann stikaði fram Rauðkubryggjuna, dró síðan annað augað í pung og læsti miði á kaðalinn. Án þess að hika stökk hann fram af bryggjunni og hugðist fanga hið eftirsótta leikfang okkar og verða í leiðinni fyrstur til að nýta sér það.

En vegna ástands okkar og þar með talið hjá okkar manni, gæti hann hugsanlega hafa séð fleiri en einn kaðal því hann slæmdi hendinni í hann og sökk síðan á bólakaf þegar hann lenti í sjónum við mikil fagnaðarlæti okkar hinna sem fylgdust með atburðarrásinni.
Snerting hans við kaðalinn gerði það hins vegar að verkum að hann tók að hreyfast eins skott á ketti þegar eigandi þess verður fyrir áreiti.
Það dugði til þess að einhver á bryggjunni náði kaðlinum og skemmtunin gat hafist. Allt hinum hundblauta Óskari að þakka.

Rauðkukrani Ljósmynd af Rauðkukrana: Halli Nonni. © Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Af honum var það hins vegar að segja að hann svamlaði til lands og tók stefnuna beinustu leið heim, en var þó kominn aftur eftir ótrúlega skamman tíma í þurrum fötum til að taka þátt í áframhaldandi gleði.

 

Texti: Leó Ólason
Fengið af vef: Steingríms Kristinssonar