Míla hefur hafist handa við lagningu Ljósnets til þeirra heimila sem eftir er að tengja á Siglufirði.

Míla hefur hafist handa við lagningu Ljósnets til þeirra heimila sem eftir er að tengja á Siglufirði, en áður var búið að tengja stóran hluta heimila með Ljósneti frá símstöð. Þar með verða öll heimili í bænum komin með möguleika á 50Mb/s nettengingu um Ljósnet Mílu. Ætlunin er að setja upp þrjá götuskápa; við Suðurgötu 44 og Hafnargötu 23, sem munu þjóna heimilum innst í bænum og við Hvanneyrarbraut 52, sem mun þjóna heimilum yst í bænum.

Nú standa yfir framkvæmdir við Suðurgötu og er áætlað að fyrsti skápur verði tilbúinn til notkunar í annarri viku maí mánaðar. Áætluð verklok eru í byrjun júní og í kjölfarið verður kerfið tilbúið til notkunar. Þá geta íbúar haft samband við sitt fjarskiptafélag til að panta þjónustu um Ljósnetið, en kerfi Mílu er aðgengilegt öllum fjarskiptafélögum sem bjóða þjónustu til notenda.
Þessari vinnu mun fylgja nokkuð jarðrask í viðkomandi götum þar sem leggja þarf ljósleiðaralagnir að götuskápunum. Míla leitast við að halda jarðraski í lágmarki eins og kostur er og vanda frágang.

Háhraðanet hratt til allra
Staða Ljósnetsvæðingar á landinu er góð. Búið er að setja upp Ljósnet á öllum þéttbýlisstöðum út frá símstöð sem á flestum minni stöðum hefur dugað til að þjóna viðkomandi bæjarfélagi. Á stærri þéttbýlisstöðum og á stöðum þar sem vegalengd til heimila frá símstöð er of mikil þarf að setja upp götuskápa (einskonar smásímstöð), til að ná til þeirra heimila sem eru of langt frá símstöð. Lagður er ljósleiðari að götuskápunum og þaðan er koparheimtaug nýtt síðasta spölinn.
Með þessari aðferð er hægt að koma góðu netsambandi til heimila á tiltölulega fljótlegan hátt og að auki er kominn ljósleiðari í nágrenni við heimilin sem auðveldar framkvæmd á næsta skrefi í þróuninni sem verður að bjóða notendum ljósleiðara alla leið.

Frétt og mynd fengi af vef: Mílu