Bæjarráð Fjallabyggðar bókaði á fundi sínum þann 25. júní:

9. 1906042 – Síldarævintýri 2019

Lagt fram erindi Guðmundar Óla Sigurðssonar, Halldóru Guðjónsdóttur og Þórarins Hannessonar fh. Stýrihóps um Síldarævintýri á Siglufirði, dags. 21.06.2019 þar sem fram kemur að félagið óski eftir að fá að nota heitið Síldarævintýri á dagskrá sem félagið hyggst standa fyrir á Siglufirði um verslunarmannahelgina.

Einnig óskar félagið eftir aðstoð/leyfi frá sveitarfélaginu vegna eftirfarandi atriða:
Afnota af garðborðum og garðstólum í eigu sveitarfélagsins meðan á hátíðinni stendur.
Afnota af veislutjöldum í eigu sveitarfélagsins meðan á hátíðinni stendur.
Aðalgatan verði lokuð fyrir bílaumferð frá Túngötu að Grundargötu meðan á hátíðinni stendur og ekki verði hægt að þvera hana um Lækjargötu. Sveitarfélagið komi fyrir blómakerjum til að loka götunni.
Sveitarfélagið sjái um losun á ruslafötum og þrif í miðbænum eftir þörfum meðan á hátíðinni stendur.
Leyfi til að setja upp tvö lítil svið (u.þ.b. 2 x 3m) í miðbænum, annað á svæðinu aftan við og til hliðar við styttuna af Gústa guðsmanni, það mun vísa að veitingastaðnum Torginu, og hitt á svæðinu gegnt Aðalbakaríi, það mun vísa að bakaríinu. Sviðin yrðu sett upp á föstudegi og tekin niður á mánudegi.
Leyfi fyrir tónlist, lifandi eða af spilara, í sundhöll Siglufjarðar í um 2 klst. á opnunartíma þessa helgi.
Félagið fái aðgang að íþróttahúsinu á Siglufirði í 3 klukkustundir á opnunartíma þessa helgi til að vera með leiki fyrir börn ef veður verður óhagstætt til leikja úti við.
Sveitarfélagið setji upp salernishús í sinni eigu við Rammalóðina sem hátíðargestir hafi afnot af.
Sveitarfélagið veki athygli á viðburðinum á heimasíðu sinni og í öðrum kynningum sínum á viðburðum ársins.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að óska eftir umsögn deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og deildarstjóra tæknideildar.

 

Forsíðumyndin er frá Síldarævintýri 2014.