Í sólskini milli élja í gær, mánudag, syntu álftahjónin frá varphólma sínum með sjö unga, fleiri en áður hafa skriðið úr eggjum þeirra í Siglufirði.

Töldu þeir sem fylgdust með ásetunni að færri eggjum hafi verið verpt á köldu vori, en það var öðru nær. Og annað en í fyrra þegar ungarnir voru aðeins tveir.

Fyrir nokkrum árum urðu álftirnar við óskum margra bæjarbúa um að flytja sig úr hólmanum í Leirutjörn og hófu varp á ný þar sem þær verptu í fyrsta sinn – árið 2007.

Ástæðan fyrir óánægju bæjarbúa með álftarvarpið í Leiruhólma var sú að pabbinn var svo árásargjarn og miskunnarlaus gagnvart öðrum fuglum að fólk átti erfitt með að horfa upp á aðfarirnar.

Gaman er að segja frá nýjum varpfuglum á Siglufirði síðan álftin nam hér land 2007. Það eru flórgoði, svartþröstur, stari, grafönd og lómur

Mynd: ÖK