Síðastliðinn fimmtudag, 5. nóvember hóf göngu sína nýr þáttur á FM Trölla sem kallast “Andans Truntur”.
Stjórnendur þáttarins eru: Guðmundur (Mundi) Helgason, Páll Sigurður Björnsson og Jón Þór Helgason. Það sem er nokkuð óvenjulegt við þennan þátt er að þeir félagar eru hver á sínum stað, Mundi og Palli eru hvor á sínum stað í Noregi og Jón Þór á Íslandi.
Í þessum fyrsta þætti var frumflutt ný og nokkuð sérstök – svo ekki sé meira sagt – útgáfa af lagi Egils Ólafssonar “Ekkert Þras”, sem í þessum búningi kallast “Meira Þras”.
Þáttarstjórnendur höfðu fyrir þáttinn hljóðritað hver í sínu horni ákveðna búta úr laginu, sem síðan var skeytt saman, en enginn þeirra þremenninga hafði heyrt framlag hinna. Hér má heyra hljóðbrot úr þættinum þar sem þeir útskýra fyrir hlustendum hvað stóð til.
Eins og fram kemur í máli þeirra félaga í hljóðbrotinu hér að ofan, tóku þeir upp myndbönd hver fyrir sig á meðan þeir hlýddu á lagið í heild sinni. Hér má sjá myndbandið samsett í svipuðum stíl og algengt er um þessar mundir í svonefndum “Covid vídeóum”.
Hægt er að heyra þáttinn í heild sinni sem og aðra þætti á FM Trölla hér á vefsíðunni.