Á vefsíðunni Kaffið.is segir frá því að 11. júlí fengu gestir í Hvalaskoðun Akureyrar óvæntan glaðning og sáu hóp af andarnefjum í hvalaskoðunarferð. Óvanalegt þykir að sjá andarnefjur nálægt ströndum.
„Í gær upplifðum við þau mögnuðu forréttindi að sjá andarnefjur! Þessi dýr búa í Norður-Atlantshafi og koma sjaldan nálægt landsvæði þar sem þau búa á djúpum svæðum og geta kafað í allt að klukkutíma. Við sáum andarnefjurnar þó ekki bara einu sinni, þær köfuðu í 20 mínútur í senn og við fengum fullt af tækifærum til þess að sjá þær,“ segir á Facebook síðu Whale Watching Akureyri.
Andarnefjan er djúpsjávarhvalur og hér við land er algengast að sjá hana við landgrunnsbrúnina á sumrin frá apríl og fram í miðjan ágúst. Hún virðist iðulega lenda í vandræðum fari hún of nálægt ströndum og er meðal þeirra hvalategunda sem oftast finnast reknar á fjörur á Íslandi.
Mynd/ Whale Watching Akureyri