Fjallamaðurinn Jósef Hopf

Trölli.is ætlar af og til að birta gamlar fréttir af vefnum Siglo.is. Hér kemur gömul frétt frá því 7. júlí 2011, Guðmundur Skarphéðinsson birti fréttina, Örlygur Kristfinnsson ritaði texta og lagði til myndir.

Jósef og milljón metrarnir

Austurríski snjóflóða-sérfræðingurinn Jósep Hopf var kallaður til árið 1996 til þess að meta aðstæður á Siglufirði og leggja á ráðin um gerð varnarvirkja.

Það var árið eftir að snjóflóðin ægilegu féllu á Súðavík og Flateyri. Nokkuð fylgdist hann síðan með framkvæmdum hér. Nú 15 árum síðar kom hann á góðum degi, skokkaði á fjallið og skoðaði aðstæður. Hann var mjög áhugasamur um mannlífið á staðnum og spurði margs um hvernig það hefði þróast síðan hann var hér síðast og hvort snjóflóðavirkin hefðu breytt einhverju.

Það sem er svo sérstakt við Jósef er hversu hress þessi öldungur er og duglegur að ganga á fjöll. Þegar hann hætti störfum og komst á eftirlaun þá ákvað hann að láta ekki deigan síga, og hann strengdi þess heit að ganga a.m.k. 10.000 metra á hæðina í fjallgöngum mánaðarlega. Það jafngildir því að hlaupa upp á Hólshyrnu annan hvern dag!

Nú er hann, áttatíu og eins árs, nærri því að ná mikilvægum áfanga: Göngu sem jafngildir milljón metrum lóðrétt upp! Þessu marki mun hann ná og fagna því með vinum sínum og vandamönnum um miðjan þennan mánuð. Geri aðrir betur!

 

Forsíðumynd: Þorsteinn Jóhannesson verkfræðingur, Jósef Hopf, Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, Örlygir Kristfinnsson fyrrv. snjóathugunarmaður og Gestur Hansson núv. snjóathugunarmaður.