Í gær komu þrír fulltrúar árgangs 1954 saman á heimili Önnu Marie Jónsdóttur og færðu henni veglaga peningagjöf frá árganginum. Tilefnið að gjöfinni er að styðja við söfnun Önnu Marie Jónsdóttur á töfrateppi sem hún hefur veg og vanda af ásamt fjölskyldu sinni.
Það voru þær Brynhildur Bjarkadóttir, Jóhanna Hauksdóttir og Karólína Sigurjónsdóttir sem komu færandi hendi.
Áætlaður heildarkostnaður við töfrateppið er um 8.5 milljónir króna og hefur nú safnast um helmingur af þeirri upphæð, svo betur má ef duga skal.
Vilja þær hvetja einstaklinga, fyrirtæki, árgangsmót og aðra til að standa við bakið á þessu þarfa samfélagsverkefni. Margt smátt gerir eitt stórt varð þeim að orði.
Í tilefni af 60 ára afmæli Önnu Maríe Jónsdóttur fyrir tveimur árum var hrundið af stað átaki til að safna fyrir töfrateppi á skíðasvæðið með það að markmiði að auðvelda börnum og byrjendum aðgang að skíðasvæðinu á Siglufirði svo flestir geti notið þessarar góðu útiveru. Þennan búnað er að finna víða á skíðasvæðum á Íslandi og nú er komið á hreint hvar töfrateppið á vera eftir að lyfturnar verða fluttar.
Stofnað var félagið KÁT Töfrateppi um kaup á töfrateppinu og eru öll framlög þegin með þökkum.
Reikningsnúmerið er: 0348-13-300108
Kt. er: 4704171290 KÁT