Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur beint tilmælum til Fiskistofu um að átak verði gert í eftirliti með grásleppuveiðum á komandi vertíð en veiðar á grásleppu hefjast eftir um mánuð.

Í átakinu verður áhersla lögð á bætta skráningu meðafla sem er mikilvæg fyrir vottun útfluttra íslenskra sjávarfurða. Áður hefur verið farið í sérstakt eftirlit með veiðunum þar sem í ljós hefur komið að skráningu á meðafla, auk sjávarspendýra og fugla, hefur verið ábótavant.

Fyrir innfluttar sjávarafurðir eru gerðar kröfur af hálfu bandarískra stjórnvalda og alþjóðlegra vottunarfyrirtækja um skráningu meðafla. Bent hefur verið á í úttektum vottunarfyrirtækja að án aðgerða gætu íslenskar sjávarafurðir veiddar á línu og í net, líkt og grásleppuhrogn, misst vottunarskírteini á erlendum mörkuðum.

Á síðasta ári framlengdu bandarísk stjórnvöld undanþágu til 31. desember 2023 frá innleiðingu reglna um vernd sjávarspendýra og fugla við fiskveiðar og fiskeldi. Reglurnar gilda um innflutning til Bandaríkjanna á sjávarafurðum úr fiskveiðum þar sem sjávarspendýr eru meðafli.

Mynd/ Svanhildur Egilsdóttir, Hafrannsóknastofnun