Líklega er það ekki algengt að gamlir bekkjarbræður gefi út bækur á sama ári – en ‏það gera ‏þeir Siglfirðingarnir Björn Z Ásgrímsson og Sigurður Ægisson.

Björn skrifaði bókina Fjallabyggð og Fljót – 25 gönguleiðir um fjallstinda og fjallaskörð. Útgefandi er Ferðafélag Íslands. Bókin er 116 bls. og prýdd fjölda glæsilegra mynda. Þá eru í bókinni mörg kort þar sem allar gönguleiðirnar eru merktar með punktum sem vísa til skrár með öllum viðeigandi GPS hnitum.

Rit þetta er afar vandað að allri gerð og sem dæmi um það eru sérstakir kaflar um gróðurfar og jarðfræði svæðisins. Og sjaldan hafa Ólafsfjörður, Héðinsfjörður og Siglufjörður notið viðlíka jafnvægis – í mannanna verkum. Auk mikilvægis Fljóta.
Höfundur er manna kunnugastur þessum landshluta, vanur smali frá unga aldri, skíðamaður og fjallagarpur. Bókin Fjallabyggð og Fljót hlýtur að vera öllum þeim sem unna útivist og fjallgöngum afar mikill fengur.

Bók Sigurðar Ægissonar, Gústi – alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn, er mikil að vöxtum, vel á fimmta hundrað síður og með fjölda mynda. Bókaútgáfan Hólar gefur út.
Það leynir sér ekki að hin vönduðustu vinnubrögð hafa verið viðhöfð við öflun heimilda og ritun þessarar bókar – og ótal margt í ævi og sögu hetjunnar góðu mun hafa verið eins og að leita að nál í heystakki í fjölda ára.

Bókinni er skipt í 26 kafla þar sem uppruna, helstu æviatriðum, trúmálum og ekki síst sögunum öllum eru gerð nákvæm skil. Það eru ekki síst sögurnar allar af þeirri þjóðasagnapersónu, sem Gústi varð í lifanda lífi, sem lesendur munu sækjast mest eftir. Það er greinilega einn af mörgum kostum þessa fjölþætta verks hvernig Sigurður leyfir hinum mörgu heimildarmönnum að njóta sín. Og í sem fæstum orðum mætti lýsa bókinni um Gústa guðsmann sem fjölradda eljuverki.

Til hamingju Siglfirðingar, að við skulum eiga svona færa og gefandi skólabræður, höfunda þessara góðu bóka! -ök