Staðsetning: Gamli Slippurinn, Siglufirði
Tími: 11. – 15. nóvember 2019
Fjöldi: 7 nemendur að hámarki
Verð: Ekkert námskeiðsgjald. Uppihald á eigin kostnað.
Umsóknarfrestur: 4. nóvember 2019
Skráning: anita@sild.is
Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta vikuna 11. – 15. nóvember nk. Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður og forsvarsmaður Báta- og hlunnindasýningarinnar að Reykhólum sér um kennslu en Hafliði hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum gamalla. Sambærileg námskeið hafa farið fram á vegum safnsins síðustu ár og tekist afar vel til.
Í upphafi námskeiðs fer fram leiðsögn um það hvernig ástand gamals báts skal metið og í framhaldinu verður hafist handa við verklega kennslu. Námskeiðið fer fram með þeim hætti að unnið er alla daga, frá mánudegi til föstudags, frá 8:00 – 18:00 síðdegis. Nemendur taki fullan þátt í smíði og annarri vinnu undir handleiðslu kennara.
Unnið verður að viðgerð tveggja báta sem varðveittir eru í Gamla Slippnum. Annars vegar verður unnið að viðgerð á byrðingi Gunnhildar ÓF18, 2. brl. afturbyggðs súðbyrðings úr furu og eik, frá árinu 1982 og hins vegar verður unnið að viðgerð á Lóu, vestfirskum árabát úr furu frá árinu 1930. Lóa var smíðuð af Sigurði Sigurðssyni beyki í Bolungarvík og þarf að skipta um efsta umfarið, borðstokkinn, endursmíða kollharða og bönd.
Meðal markmiða Síldarminjasafnsins er að standa vörð um forna þekkingu á smíði opinna tréskipa á Íslandi og er námskeiðið skipulagt í samræmi við samning safnsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Gamli Slippurinn er kjörinn vettvangur til námskeiðshalds, en um er að ræða verkstæði frá árinu 1934, sem komst í eigu Síldarminjasafnsins árið 2011. Þar er að finna gömul verkfæri og trésmíðavélar til bátasmíða sem nemendur notast við meðan á námskeiðinu stendur. Sem dæmi má nefna stóran amerískan þykktarhefil og bandsög sem eru orðin hundrað ára gömul, og enn í notkun.