Bein útsending verður frá Ljóðasetri Íslands í dag 17. mars kl. 16:00.

Ljóst er að lítið sem ekkert verður um opinberar samkomur og viðburði næstu vikurnar sökum Covid – 19 veirunnar og viðbragða til að minnka og hægja á útbreiðslu hennar.

Engir opnir viðburðir verða því á Ljóðasetrinu þær vikur sem samkomubannið stendur yfir. En í öllum aðstæðum felast tækifæri og til að bregðast við þessum aðstæðum verður boðið upp á viðburði í beinni á fésbókarsíðu setursins kl. 16.00 flesta daga vikunnar.

Þessir viðburðir verða í svipuðum dúr og hinir daglegu viðburðir sem eru á sumrin; þeir standa í 30 – 40 mínútur og þar verður ljóðlist og tónlist í forgrunni. Einnig verður tækifærið notað til kynna hina fjölbreyttu starfsemi Ljóðasetursins og fá góða gesti til að skemmta áhorfendum.

Í dag mun forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands, Þórarinn Hannesson segja aðeins frá setrinu og grípa í gítarinn.