Þar sem lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 mun Heilbrigðisstofnun Norðurlands efla fjarþjónustu á starfsstöðvum sínum.

Símaþjónusta verður aukin og símatímum lækna verður fjölgað.

Hjúkrunarfræðingar munu áfram veita símaráðgjöf.

Stefnt er að því að hafa samband við þá sem eiga pantaðan tíma og reynt að leysa erindið símleiðis.

Þjónusta verður að sjálfsögðu áfram fyrir þá sem þurfa að koma á heilsugæsluna en fólk er hvatt til þess að panta símatíma fremur en viðtal á stofu ef það á við.   

Mælst er til þess að aðeins annað foreldri komi með barni sínu í ungbarnavernd og að konur komi einar í mæðravernd. Búast má við breytingum á ungbarnavernd, mæðravernd og heilsuvernd skólabarna og verður það þá tilkynnt.      

Þjónusta í gegnum vefinn heilsuvera.is er einnig aukin, bæði í formi skilaboða á mínum síðum og þá verður netspjall opið alla daga frá 8.00 – 22.00.

Minnt er á að þeir sem hafa grun um að vera með COVID-19 skulu hringja í sína heilsugæslu á dagvinnutíma en annars í 1700 til að fá ráðleggingar en ekki koma á heilsugæsluna.

Góðar leiðbeiningar til almennings eru á vef Embættis landlæknis, landlaeknir.is og er fólk hvatt til að kynna sér þær.