Bikarmót Kraft í klassískum kraftlyftingum fór fram um síðustu helgi, þ.e. kraftlyftingar án hjálparbúnaðar, eins og hnévafninga og stálbrókar. Mótið var tvískipt, á laugardeginum var keppt í öllum greinum og á sunnudeginum í bekkpressu. Fimm keppendur frá KFÓ tóku þátt og stóðu sig allir frábærlega:

Hilmar Símonarson keppti í 66kg flokki. Í hnébeygju tók hann glæsilega 180 kg sem er aðeins 5 kg frá Íslandsmeti, líklegast hefði sú þyngd farið upp ef hann hefði átt eina lyftu inni. Í bekkpressu tók hann 100kg og í réttstöðulyftu 200kg, samtals 480kg. Bæði bekkpressan og réttstöðulyftan voru undir væntingum en þrátt fyrir það þá vann Hilmar flokkinn með yfirburðum og endaði sem fjórði stigahæsti maður mótsins. Magnaður keppnismaður sem er rétt að byrja en samt kominn í fremstu röð á íslandi.

Álfheiður Líf Friðþjófsdóttir keppti í -72 kg fl. Álfheiður er barnung og ein af okkar vonarstjörnum. Þennan dag gekk nánast allt upp. Hnébeygja 97,5kg, bekkpressa 45kg og réttstöðulyfta 102,5kg, samtals 245kg. Flottar bætingar í öllum greinum! Álfheiður var í öðru sæti í sínum flokki.

Hólmfríður Sturludóttir keppti í -84 kg fl. Hólmfríður er tiltölulega nýbyrjuð að æfa og var að keppa hér á sínu fyrsta móti. Hólmfríður kom öllum á óvart og þó mest sjálfri sér, veit ekki afl sitt. Hnébeygja 60kg, bekkpressa 42,5kg og réttstöðulyfta 92,5kg samtals 195kg. Það er alltaf áfangi að komast í gegnum sitt fyrsta mót, Hólmfríði tókst það með glæsibrag og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni. Hólmfríður lenti í þriðja sæti í flokknum.

Seinni dagurinn Bekkpressa:

Anna Lára Ólafsdóttir keppti í 72kg flokki og var hér á sínu fyrsta móti. Það byrjaði ekki vel, í vigtun um morguninn reyndist Anna Lára vera yfir mörkum fyrir flokkinn sinn og reglur eru þannig að ef vigtin er ekki rétt miðað við skráðan þyngdarflokk þá fær viðkomandi ekki að keppa. Nú var farið á hlaupabretti, hamast fram á síðustu mínútu og þegar 30 mín voru í að mótið myndi hefjast náði Anna að fara undir réttan þyngdarflokk. Beint í smá drykk og upphitun og til að gera langa sögu stutta þá sló Anna í gegn með seríuna 50-55 57,5 allar lyftur í gegn sem skiluðu Önnu þriðja sæti í flokknum. Magnað afrek eftir það sem á undan hafði gengið!

Sunna Eir Haraldsdóttir keppti í +84kg flokki. Sunna keppti fyrir 9 árum síðan og átti best 77.5kg á móti. Á þessu móti tók hún seríuna 80-85-90 og átti inni. Gull í flokknum og þyngd sem margir karlmenn eru stoltir af að ná í bekkpressu.

 

Kraftlyftingafélag Akraness hélt mótið, umgjörð öll var til fyrirmyndar. Það er ljóst að við þurfum engu að kvíða hjá KFÓ, við verðum innan fárra ára komin með gríðarlega öfluga sveit keppnisfólks. Á þeirri vegferð er mjög mikilvægt að unga fólkið fái að keppa á jafn glæsilegu móti og haldið var á Akranesi. Áfram KFÓ!

 

Af facebook síðu Kraftlyftingafélags Ólafsfjarðar