Í lok maí voru formlega teknir í notkun þrír björgunarfarasamlíkjar við Slysavarnaskóla sjómanna. Um er að ræða samlíkja sem herma eftir hraðskreiðum léttbát, lífbát og frífallandi lífbát.
Eru þeir gjöf frá Styrktarsjóði nemenda Stýrimannaskólans í Reykjavík sem nýlega var lagður niður en 100 ár eru síðan hann var stofnaður. Fulltrúar nemendafélags Skipstjórnarskólans mættu, ásamt forráðamönnum Tækniskólans, við vígslu samlíkjanna.
Pálmi Þrastarson varaformaður nemendafélagsins gangsetti formlega samlíkjana en ásamt honum var fyrsta formlega sigling í hermunum framkvæmd af Ólafi Mikaelssyni skipstjórnarnema og Vilbergi Magna Óskarssyni kennara.
Gjöf þessi er gríðarlega öflug viðbót við kennslubúnað Slysavarnaskóla sjómanna sem mun nýtast verðandi og starfandi sjómönnum vel við þjálfun í meðferð björgunarfara. Samlíkjarnir eru framleiddir hjá Virtual Marine í Kanada og hefur það fyrirtæki verið að þjálfa kennara skólans í notkun þeirra.