Sjö MTR-nemendur og tveir kennarar hafa dvalið í Saldus í Lettlandi þessa viku og tekið þátt í Erasmus+ verkefninu „U2 have a voice“.

Það snýst um að efla nemendalýðræði og virkja ungt fólk til þátttöku í lýðræðissamfélagi. Ásamt íslensku nemendunum taka nemendur frá Grikklandi, Lettlandi og Tékklandi þátt. Nemendurnir gista hjá fjölskyldum í Saldus og kynnast þannig innbyrðis og fá tækifæri til að upplifa ólíka menningu inni á heimilunum og í Saldus Videskula sem heldur utan um verkefnið í Lettlandi. Þátttakendur fengu höfðinglegar móttökur á mánudagsmorgun þegar haldnir voru tónleikar þeim til heiðurs í anda kærleika og ástar, enda Valentínusardagurinn nýliðinn.

Nemendur MTR hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum, kynnt landið sitt og Fjallabyggð ásamt því að fræða samnemendur sína um skólann sinn. Það hefur vakið athygli að þau sinna námi sínu samhliða því að taka þátt í verkefninu þessa viku. Það hafa þau samviskusamlega gert og mátti heyra nemendur m.a. fletta upp í z töflum í rútunni á leiðinni í Keflavík og spreyta sig á íslenskuprófi í einu hléinu hér í Saldus. Grískir samnemendur buðu fram aðstoð en leist ekki á þegar okkar fólk fór að útskýra Hávamál og Eddukvæði fyrir þeim.

Nemendur úr MTR tóku sérstaklega fyrir starf björgunarsveitanna á Íslandi og ungliðastarfið þar þegar þau kynntu sjálfsboðaliðaverkefni. Auk þess gáfu þau neyðarkallinn þeim sem þiggja vildu. Eftir að hafa útskýrt mikilvægt og fórnfúst starfs björgunarsveitanna og þá gríðarlegu vinnu sem þær leggja á sig, sérstaklega núna í öllum vondu veðrunum, kom sú spurning upp hvort óhætt væri að ferðast til Íslands! Þá var svar okkar fólks að þau myndu redda þessu enda flest starfandi í ungliðastarfi björgunarsveitanna í sinni heimabyggð. Þess má geta að þátttakendur í verkefninu frá Lettlandi, Grikklandi og Tékklandi sækja MTR heim í byrjun maí og vonandi verða verstu hríðarbyljirnir gengnir yfir þá.

Af vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga, mtr.is