Þáttastjórnendur “Gestaherbergisins” sem er á dagskrá FM Trölla í dag kl. 17:00 – 19:00, þau Helga Hinriksdóttir og Páll Sigurður Björnsson eru búsett í Noregi.

Um helgina brugðu þau sér í ferðalag og hittu fyrir nokkra aðra Íslendinga á sveitabænum Tøgje í Noregi til að gera slátur, svíða lappir og hausa, svo ekki sé talað um bakstur á dýrindis flatbrauði.

Meðal þeirra Íslendinga sem voru með þeim við þessa gömlu, góðu og þjóðlegu iðju landans voru hjónin, Valur Gunnarsson og Hermína Gunnarsdóttir, Ólöf Guðnadóttir, Guðmundur Helgason, mæðgurnar Jónína Arnarsdóttir og Arna Þrastardóttir, Hrafn Þorsteinsson, Freyr Aðalsteinsson. Gísli Vattnes, Sigríður Óladóttir og Jón Pétur Guðnason.

Gestgjafarnir á bænum Tøgje voru þau Britt Johnsen og Guðni Davíðsson, hann sá um að kaupa hausana, lappirnar og lögðu þau til aðstöðuna til að hægt væri að útbúa þetta þjóðlega góðgæti.

Trölli.is þakkar þeim hjónum fyrir þessa skemmtilegu frásögn og myndirnar.

Páll Sigurður Björnsson segir svo frá ferðinni.

“Við hjónin lögðum af stað frá Sandefjord, hvar við búum, og keyrðum til Ålgård, sem er bær í fylkinu Rogalandi. Ålgård er í um 15 mínútna akstursfjarlægð suð-austur af Stavanger.

Ástæða ferðarinnar var að vera með í sláturgerð og að svíða hausa og lappir, til að búa til svið og sviðalappir.
Föstudagurinn 23. okt. var notaður í sláturgerðina. Bæði blóðmör og lifrarpylsa var búið til. 28 keppir af blóðmör en 138 keppir af lifrarpylsu, og var þessu bróðurlega skipt á milli þeirra sem tóku þátt í framleiðslunni.

Laugardagurinn 24. okt byrjaði á því að Helga og Hermína hnoðuðu í flatkökur, sem voru svo steiktar með gasi, í sveitinni þar sem gasið var svo notað í að svíða lappirnar og hausana.125 hausar voru sviðnir og 100 lappir.

Ekki tók nema um tvo og hálfan tíma að svíða þetta allt og þrífa. Notuð voru þrenn gastæki til að svíða og rafmagns-stingsög til að saga hausana, og svo voru hausar og lappir þrifnar. 
Allt gekk þetta glimrandi vel og svo tók hver það sem hann eða hún hafði pantað af hausum og löppum.

Eftir átökin voru svo önnur átök en það var að borða grillaðar pulsur og flatkökur.
Heimkoma var svo sunnudaginn 25. okt.

Ljómandi góð helgi og þetta verður líklega gert aftur að ári.

Helga og Palli á heimleiðinni að hlusta á “Tíu dropa” á FM Trölla. Eitthvað klúðruðust tæknimálin í þættinum og Helga tók andann á lofti yfir þessum þætti Tröllahjóna