Úr siglfirskum sagnaþáttum, eftir Þ. Ragnar Jónasson.
Það vakti mikla eftirtekt og ánægju bæjarbúa á Siglufirði þegar í fyrsta sinn vour tendruð blys á brún Hvanneyrarskálar, á þrettándandum árið 1947.
Í dagbókum lögreglunnar á Siglufirði 6. janúar það ár er bókað eftirfarandi: “Klukkan 20:45 var kveikt á blysum upp á Hvanneyrarskálarbarminum og náðu blysin upp í hlíðar báðum megin við Hvanneyrarskálina. Blysin vour samtals 35, auk allmargra smærri blysa í hlíðinni neðan við Hvanneyrarskálina. Starfsmenn úr S. R. útbjuggu blysin.”
Einn af þeim sem störfuðu við gerð og uppsetningu blysanna, Halldór Bjarnason járnsmiður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, rifjaði upp haustið 1996 hvernig að þessu var staðið og sagðist honum svo frá:
“Blysstangirnar voru um einn metri á lengd og voru vafðar með tjöruhampi og striga og síðan vættar í hráolíu. Margir tóku þátt í því að búa til blysin, en það fór fram í húsakynnum verksmiðjanna, og einnig við það að koma þeim fyrir í fjallinu.
Aðeins var hægt að komast með blysin í bíl út að prestssetrinu á Hvanneyri, en síðan þurfti að bera þau upp bratta hlíðina sunnan við Hvanneyrarána. Blysin voru síðan sett í röð, eftir frambrún Hvanneyrarskálarinnar, með jöfnu millibili. Hver maður átti að sjá um fimm blys og kveikja á þeim þegar merki var gefið. Það gerðu allir í einu.”
Halldór segir að Guðmundur Einarsson vélstjóri hjá Síldaverksmiðjum ríkisins hafi átt hugmyndina að þessu, eins og fram kemur í Siglfirðingi 17. janúar 1956. Þar segir einnig: “Hann sá um útbúað blysanna og fékk í fyrstu mokkra yngri menn úr skíðafélögunum til að koma þeim upp á brúnina og staðsetja þau. Síðan var kveikt á blysunum það seint, að á öllum lifði yfir áramótin.”
Næst voru blys tendruð á brún Hvanneyrarskálar á gamlársdag 1947, eins og sjá má á bókun í dagbók lögreglunnar: “Starfsmenn S. R. kveiktu á 48 blysum og flugeldum upp á Hvanneyrarskálarbrún.” Þessum sið var síðan við haldið um hver áramót.
Í blaðinu Ísafold og Vörður 6. janúar 1953 segir svo: “Á vegum skíðafélaganna á Siglufirði hafði verið komið fyrir fjölda blysa í Hvanneyrarskál, þannig að fremri brún skálarinnar var þakin blysum frá norðri til suðurs. Um kvöldið var svo kveikt á öllum blysunum samtímis. Laust fyrir miðnætti kom önnur ljósadýrð litlu sunnar í fjallinu beint upp af bænum og þar kom ártalið 1953. Svo kyrrt var, að kerti loguðu úti, hvar sem var í bænum.”
Þetta var í fyrsta sinn sem logandi ártal var sett með kyndlum í fjallið ofan við bæinn, undir syðsta Gimbraklettinum. Um það sáu nokkrir ungir menn og var Ragnar Páll Einarsson listmálari foringi fyrir þeim hópi, svo sem frá er greint í Hellunni árið 1991. Þetta var mjög skemmtileg viðbót við ljósaskreytingarnar sem áður vour komnar. Þessir ungu menn héldu þessum sið um fimm áramót. Síðar settu Skíðafélagsmenn ártalið neðan við ljósin á Hvanneyrarskálarbrún.
Í blaðinu Siglfirðingi 21. janúar 1963 er eftirfarandi: “Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg sá um áramótaskreytingarnar í Hvanneyrarskál og fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn, með líku sniði og verið hefur. Að þessu sinni var lýsing skálarinnar og ártalið raflýst, sem er einsdæmi hérlendis, og var hið fegursta. Siglufjarðarkaupstaður veitir félaginu fjárhagslegan stuðning í þessari lofsverðu viðleitni, sem um langt árabil hefur gert Siglufjörð öðrum bæjum sérstæðari í áramótaskreytingum.”
Eftir að raflýsing var tekin í notkun í stað tjörublysa, var hægt að láta ljósin standa lengur. Þá var byrjað að lýsa það ártal sem var fyrir áramótin. En kl. 24 á gamlaárskvöld var síðasta tölustaf í ártalinu breytt svo, að nýja ártalið myndaðist.
Upphafsmönnum og forgöngumönnum þessara framkvæmda, svo og öllum þeim sem starfað hafa að þessu verki, ber að þakka fyrir framtakið og þennan mikla ánægjuauka fyrir bæjarbúa í svartasta skammdeginu. Þeir lögðu á sig mikla fyrirhöfn og erfiði, sérstaklega á meðan notuð voru tjörublys. Þetta er mikil bæjarprýði og talið ómissandi að dómi allra í bænum. Mun þetta hafa verið einsdæmi á landinu, að minnsta kosti í upphafi.