Ungir og aðeins eldri á leikskóladeildinni Núpaskál á Siglufirði heimsóttu Bátahúsið í gær af því tilefni að þau eru að lesa bókina Saga úr Síldarfirði eftir Örlyg Kristfinnsson. Bókin segir frá Sigga sem 12 ára gamall og flyst ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar í upphafi síðustu aldar.
Lísa Margrét Gunnarsdóttir, sem vinnur í Síldarminjasafninu, tók vel á móti fólkinu og bauð þeim meðal annars að fara niður í lúkar á mótorbátnum Tý og hreiðra um sig í kojunum og las hún einn kafla úr bókinni góðu. Það voru ekki allir tilbúnir að fara niður í lúkar til að byrja með og vildu eiginlega bara fara heim, en að lokum tókst að tala alla til og farið var niður. Börnin sáu ekki eftir því og væru til í að fara aftur.
Eftir lesturinn var Bátahúsið skoðað og meðal annars sest á bekki og horft á gamlar myndir frá síldarárunum.
Þegar út var komið eftir skoðunarferðina vildi svo heppilega til að það var síldarsöltun fyrir utan Róaldsbrakka með tilheyrandi glaum og gleði, og börnin skemmtu sér vel.
Mynd/aðsend