Í seinni hlutanum kíkjum við til viðbótar á 65 merkilegar Siglfirskar ljósmyndir af jeppum og allskyns farartækjum sem koma að góðum notum í einangruðum snjóþungum firði, sem og á einkennileg reiðhjól og skellinöðrur, kranabíla, dýpkunarskip, kajaka og fl. skrapatól.

Þessar myndir segja okkur allar svo ótrúlega mikla sögu úr liðnum tíma.

Við byrjum á því að kíkja á Vespur, skellinöðrur og einkennileg reiðhjól.

Á forsíðuljósmyndinni sjáum við Guðbrand Magnússon, kennara í sumarvinnu á Piaggio Vespu þríhjóli, en þetta einkennilega farartæki var í daglegu tali heima á Sigló kallað Apinn. Guðbrandur kennari vann nokkur sumur við afgreiðslu og vöruútkeyrslu fyrir vöruflutningamiðstöð Birgis Runólfssonar. Nafn ljósmyndarans er Hannes P. Baldvinsson, en myndin er líklega tekinn 24 ágúst 1957 á fimmtugsafmælisdegi Guðbrands framan við heimili hans á Hliðarvegi 3c. (Brekkugata)

Það vill svo skemmtilega til að akkúrat þetta Piaggio Ape vespu þríhjól er til sýnis á Samgöngusafninu í Stóragerði. Dóttir Guðbrands sendi pistla höfundi mynd af upplýsingaskilti með skemmtilegum viðbótar upplýsingum um sögu þessa skrítna skrapatóls.

Upplýsingaskilti. Piaggio Ape, árgerð 1948. Ljósmyndari: Filippía Þóra-Pía Guðbrandsdóttir.

Þetta farartæki er einhverskonar Ítalskur “míní vörubíll.”
Vespur voru mjög svo vinsæl og ódýr farartæki, stórkostleg uppfinning sem breytti heiminum til hins betra á erfiðum eftirstríðsárum á Ítalíu og út um allan heim. Sjá meira hér um gamlar Piaggio Vespur:

FROM THE ORIGINS TO MYTH
Seventy years of history since 1946.

Á Netflix er einnig hægt að finna mjög svo skemmtilega og fræðandi kvikmynd:

Enrico Piaggio: An Italian Dream
Original title: Enrico Piaggio: Vespa

ATH. Hægt er að skoða myndirnar einar og sér með því að smella á hvaða mynd sem er og þá er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að lesa myndaskýringartexta og aðrar sögur og útskýringar sem fylgja með þessum einstöku ljósmyndum.

Siglfirskt járnbrautakerfi! Á Siglufirði voru fleiri km. af járnbrautarteinum undir síldarlöndunar sporvagna. Myndin er tekin á bryggjunni fyrir framan söltunarstöð Skafta á Nöf. Takið eftir stærðinni á planinu fyrir innan bryggjuna þar sem faðir pistla höfundur stendur og spjallar við Sigga Konn og það sést í flottu rauðu Piaggio vespuna hans pabba í bakgrunninum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

SKELLINÖÐRUR OG EINKENNILEG REIÐHJÓL

Skellinöðrur eru skemmtileg farartæki og sumar voru svo kraftlausar að maður varð að hjóla með í brekkum. Það fylgdi þeim leiðinda hávaði og þær voru kallaðar hinum ýmsu nöfnum. Eins og t.d. prumphænur, skothjól, hjálpartík og jafnvel smellitík. Sumir sögðu bara “Reiðhjól með hjálparvél” það þótti samt nokkuð niðurlægjandi. Á dönsku heita þessar nöðrur “Knallert” og “Moped” á sænsku.

Hannes Garðasrson (HANNES BOY / BEGÓLÍN) og flotta Suzuki skellinaðran hans. Pistla höfundur minnist þess sem unglingur að margir urðu hissa heima á Sigló þegar Hannes birtist allt í einu á þessari líka flottu 50 CC Súkku. Svo varð hann leiður á skellinöðrunni og skellti sér í að taka bílpróf og keypti góðan bíl strax þar á eftir. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Árni Filippus Magnússon og F – 6 skellinaðran hans. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Magnús Pálsson á flottri NSU skellinöðru á Eyrargötunni. ( Líklegast heitir naðran NSU Quickly ) Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Samkvæmt nokkuð áráðanlegum heimildum sem bárust pistla höfundi nýlega, var hægt að panta svona skrapatól hjá Fálkanum í Reykjavík 1957, fyrir aðeins kr. 5.550.
Sendilsreiðhjól. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Sigurður Fanndal. sendi inn upplýsingar 13. mars 2009:
Þarna er Haraldur Reynir Árnason, seinna málari, á sendilshjóli Ásgeirs Jónassonar, síðar Verslunarfélags Siglufjarðar, framan við Norðurgötu 5. á Siglufirði.
Vilhjálmur Sigurðsson situr á bögglaberanum og Matthías Jóhannsson á sendils reiðhjólinu. Alfonshúsið við Gránugötu í baksýn. Ljósmyndari: Ókunnur.

Siglfirsk uppfinning. Olíutunnureiðhjól fyrir farþegaflutninga. Almar Möller og Ingvar Steinarsson. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

Nýtísku reiðhjól með WC og tilheyrandi. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ólafsfirðingurinn Gotti Konna og Konni Gott sonur hans í flottum sérsmíðuðum reiðhjólatengivagni með barnastýri. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

JEPPAR, JARÐÝTUR OG FL. (SNJÓ) SKRAPATÓL

Willys, Rússa jeppar, Land Rover og Volvo Laplander og. fl. fjórhjóladrifnir fjallabílar voru upprunalega mest notaðir í hernaði hér áður fyrr. Flestir voru ekki upprunalega yfirbyggðir og það passaði ekki Íslenskum aðstæðum. Íslendingar hafa ætið verið duglegir uppfinningamenn og fljótir að breyta og byggja bíla sem henta aðstæðum. Pistla höfundur mælir eindregið með því lesendur fari í heimsókn á Samgöngusafnið í Stóragerði, en þar er hægt að sjá mikið af þessum séríslensku bílabreytingum.

Á Sleitustöðum þar rétt innar var á sínum tíma frægt bílaverkstæði og þar voru sumir starfsmenn kallaðir bílasmiðir. Í þessu pínulitla Skagfirska þorpi var einnig mikil útgerð af bæði fólks- og vöruflutningabifreiðum og fræg vegasjoppa.

Land Rover jeppar voru mjög mjög vinsæl og hentug fjórhjóladrifin farartæki á sínum tíma. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

F – 99. Siglfirskir skíðakappa á Land Rover. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
F – 431 var flottur trukkur í eigu Rafveitu Siglufjarðar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
F – 352. Volvo Laplander trukkur Pósts og síma á Aðalgötunni. Þessi bifreið tengist hræðilegu slysi sem gerðist 26 nóvember 1970. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Mjölnir – 04. desember 1970

Hörmulegt slys!
Það hörmulega slys varð um miðjan dag fimmtudaginn 26. nóv. s.l., að geysisterk stormhviða þeytti bifreið út af veginum við Sauðanes. Hrapaði bifreiðin niður í fjöru, mikið fall. Í bifreiðinni var einn maður, Jón Gunnar Þórðarson, símaverkstjóri, og beið hann bana. Þennan dag gekk á með sterkum stormhviðum. Símamenn höfðu undanfarið unnið að viðgerðum í fjarskiptastöðinni á Sauðanesi og var því verki lokið, aðeins eftir að ganga frá húsinu og þess háttar og fór Gunnar í símabílnum út eftir, ásamt viðgerðarmanni frá Akureyri, en sá ætlaði að aka beint heim á leið frá Sauðanesi.

Þeir voru á heimleið, komnir ofarlega á afleggjarann heim að vitanum, er sterk stormhviða gekk á, og stöðvuðu þeir bílana. En allt í einu herðir vindinn og símabíllinn, sem var Volvo fjallabíll, þeyttist út af veginum, en einmitt þar var skemmst fram á brúnina og síðan snarbratt niður í fjöru. Hjálparmenn frá Siglufirði komu á staðinn nokkru síðar og fundu Gunnar látinn. Mun hann hafa dáið strax. Jón Gunnar Þórðarson var á besta aldri, 35 ára, og lætur eftir sig konu og þrjú börn. Þetta sviplega slys sló þungum harmi á bæjarbúa. Þarna fórst indæll maður, allra hugljúfi í umgengni og starfi sínu.

Sjá fleiri fréttaágrip og minningarorð um hin unga símaverkstjóra sem lést í þessu hörmungar slysi hér á heimasíðu Steingríms Kristinssonar:

Jón Gunnar Þórðarson símaverkstjóri

F – 460. Flottur Ford Bronco fram á firði, Hesthús í bakgrunninum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
F – 69821. Sérkennilegur Safari jeppi við Öldubrjót. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
F – 107 og Gunnar Jens Þorsteinsson. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sighvatur Elefsen sendi inn upplýsingar 23. febrúar 2009:
F 107
Sæll Steingrímur. Hef ekki hugmynd um hver maðurinn er en mér dettur í hug hvort þetta er FORDSON bíll sem pabbi átti. Ég tel mig vita að það hafi ekki verið margir frambyggðir vörubílar á Sigló. Pabba bíll var það. Þeir frændur mínir, Sverrir eða Óskar vita þetta hugsanlega.
Ath. ​SK- Drengurinn heitir Gunnar Jens Þorsteinsson f. 09-Jún-38 – það var einnig svona bíll í eigu Kjötbúðarinnar á Siglufirði og einnig Guðmundar Einarssonar, sem lengst var eigandi slíkrar bifreiðar. Hvort þarna er um sömu bifreið að ræða veit ég ekki
Jakob Jónsson sendi inn upplýsingar 15. mars 2009
Bílategund?
Bíllinn á myndinni er Kanadískur Chevrolet CMP bíll. Allmikið af svona bílum var flutt inn árið 1947. Þetta voru hörku torfærutrukkar, sem komu að góðu gagni, ekki síst í snjóþungum landshlutum

F – 24 Willys jeppi og Birgir Gunnlaugsson á gönguskíðum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
F – 120 Willys. Vor á Skarðsveginum um miðja síðustu öld. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Skarðsvegurinn gamli gat verið varasamur um hásumar líka. Ljósmyndari óþekktur.
Kjartan Björn Guðmundsson sendi inn upplýsingar 20. október 2009:
Bílvelta á vegi upp að Siglufjarðarskarði.
Ég sé ekki betur en að þetta sé bifreið sem Valgarð Sigmarsson, frá Bræðrabóli á Hofsós, átti og ók er þetta skeði. Með honum í för var fjölskyldan á Stekkjarbóli í Unadal og sá er þetta ritar. Eftir því sem ég kemst næst þá mun þetta hafa skeð 1952, þá um sumarið.
F 151 á austurleið í Siglufjarðarskarði. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.
F – 119 Willys blæjujeppi í Skarðinu. Ljósmyndari: Gestur Fanndal. Sigurður Fanndal sendi inn upplýsingar 13. mars 2009: Georg Fanndal kaupmaður átti þessa Willys jeppabifreið F – 119 árg 1946, seinna F – 45. Kristján Sigtryggsson byggði síðar, á efstu hæðinni í Suðurgötu 10 á hana timburhús í stað blæjunnar. Áður hafði bifreiðin verið lengd í vélaverkstæði RAUÐKU. Með á myndinni er Garðar Guðmundsson. ( Gæji Bæ
F – 91. Wilys jeppi með blæjutaki. Ljósmyndari óþekktur.
Rússajeppi með blæjutaki, Land Rover og snjóbíll. Þessa ljósmynd tók Steingrímur uppi á Fjarðarheiði, “Pálsmenn” hjá SR á leið til Seyðisfjarðar. Þarna var allt stopp vegna snjóa, en snjóbíllinn tók við farþegunum. “Þessir “Pálsmenn” voru starfsmenn hjá SR Tréverkstæði undir stjórn Páls Jónssonar trésmíðameistara. Þar vann ég í um 8 ár sem fastráðinn starfsmaður. (SK)
Gallabuxur og Rússajeppi. Ljósmyndari óþekktur.
Snjóflóð féll enn og aftur á hitaveitudæluskúra í Skútudal. Snjóbíll flytur mannskap og skóflur á staðinn. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Snjósmokstur á Skarðsvegi.Ýtustjórinn heitir Friðgeir Árnason. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Siglfirsk jarðýta með húsi og Ásgeir Gunnarsson ýtustjóri. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Snjómokstursslys! Ææ… það var víst bíll þarna undir snjónum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Það er margt og mikið til af alskyns tækjum og tólum úti á vegalausu Siglunesi. Ljósmyndari: Guðný Ósk Friðriksdóttir. Sveinbjörn Blöndal listamaður, úti á Siglunesi 1988.
Skurðgrafa i Hvanneyrarhlíðinni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Rokkerman trukkur nr.1 í vinnu við Strákagöng. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Guðlaugur Ævar Hilmarsson sendi inn upplýsingar 04. mars 2009
Ásinn
Bílstjóri Guðlaugur Ævar Hilmarsson. Þetta er Rokkerman trukkur nr. 1, kallaður Ásinn. Eini trukkurinn sem lifði gatið var Ásinn. Hinir Tvisturinn og Þristurinn fóru fram af. Það sem bjargaði Ásnum var að hann var með Kúplingu. Hinir voru hálfsjálfskiptir.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Vinna í Strákagöngum 1965. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Traktors skíðalyfta. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Snjótroðarar eru líka ágætis skíðalyftur. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Gamla skíðalyftan í Hólsdal. Hún var seinna færð norðar og eyðilagðist síðan í snjóflóði. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Skíðamót og snjósleði. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Snjósleði á Suðurgötu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

KRANAR!…
EIGA ÞAÐ TIL AÐ DETTA STUNDUM Á HLIÐINA

F – 514. Link Belt krani með máluðum hesthaus. Frægur Siglfirskur krani. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Það væru algjör helgispjöll að hálfu pistla höfundar að horfa framhjá kranasögu Siglufjarða. Steingrímur Kristinsson stofnandi Ljósmyndasafns Siglufjarðar vann í áratugi sem kranastjóri og það er varla til sá krani sem hann hefur ekki stjórnað. Mér veittist sá heiður að hafa fengið að vinna með þessum einstaka manni í mörg sumur. Vann hjá bænum á allskyns tækjum og tólum, en þó mest við að stjórna stærðarinnar Bedford steypuhrærivél og blandaði steinsteypu í götur og hús út um allan bæ. Steingrímur og kranafélagar hans hífðu síðan steypusílóið út og suður.

Steingrímur og Guðmundur Skarphéðinsson keyptu sama þennan öfluga Link Belt krana gegnum félagið Krani SF. Þeir seldu síðan kranann fjórum árum síðar með góðum gróða til Þormóðs Ramma hf.

Kranastjórar voru eftir það starfsmenn Rammans, þeir Birkir og Salli. (Salmann Kristjánsson)

Í þessum kafla koma í lokin myndir og tvær stuttar sögur sem tengjast persónulegum minningum um kranaslys í Skútudal en þar skemmdist þessi áður nefndi Link Belt krani illa.

Pistla höfundur, Jón Ólafur Björgvinsson og Bedford hrærivélin stóra. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Gömlum krana stýrt með handafli. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Í eigu SR verksmiðjana, sem átti tvo slíka. Aksturs og hífi búnaður kranans var rafdrifinn , en rafallin var knúinn 8 sílendra Ford bensínmótor. En þarna var stýri búnaðurinn brotinn og óvirkur. Kristinn Jóakimsson er að stjórna stefnu kranans. Skömmu seinna voru síðustu dagar þessa krana taldir. (SK)
Sami krani og hér fyrir ofan fór á hliðina og í gegnum bryggjuna við Öldubrjót. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Kraninn var að vinna við tilfærslu á lýsisbörkum á Öldubrjótnum, bryggjuþekjan rofnaði og fór sem myndin sýnir, árið 1980 Þáverandi kranastjóri var Jón Kr. Jónsson, hann fótbrotnað við slysið, en var fljótur að ná sér.
Fyrstu tilraunir við að fella Gránuskorsteininn.Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Þarna lengst uppi voru Óskar Berg Elefsen og Guðmundur Oddur Jóhannsson að vinna með lofthamri. Byrjað var ofan frá, en verkið gekk seint vegna traustrar byggingar, svo þá var hætt við þessa aðferð og gerð tilraun til að sprengja hann niður með dínamít sem hlaðið var niður við jörð og átti hann að falla til suðausturs. Það mistókst og ekki var talið ráðlegt að hlaða dínamít aftur að ótta við að skorsteinninn félli í öfuga átt, en mikið gap hafði myndast suðaustanmegin við sprenginguna. Þá var brugðið sterkri vírstroffu tengdri togvír um efri hlutann og stór jarðýta gerði tvær árangurslausar tilraunir við að fella hann áður en það tókst með miklum látum. En þarna er verið að rýma gömlu Rauðkurústirnar vegna bygginga fiskiðjuvers á vegum Þormóðs Ramma hf. (SK)

Í stóru SR 30 þrónni. Krani verksmiðjunnar. Kranastjóri er Guðmundur Oddur Jóhannsson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
ATH.
í þessari síldar/loðnu þró var oft spilaður handbolti, fótbolti og badminton og fl.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Berg hf. undir stjórn Birgis Guðlaugssonar tók að sér lagfæringar utan húss, á Hótel Hvanneyri. Hann lét smíða stillas (vinnupalla) við suðurhliðina á húsinu, og eftir að lagfæringum þar var lokið, þá lét hann flytja stillasinn við vestur hliðina og síðan á norðurhlið hússins. Allt gekk þetta upp eins og hann hafði áætlað. Sömu aðferð beitti hann vegna smíði á stillas við Aðalgötu 34, Útvegsbanka húsinu, nema þar byggði hann stillasinn á láréttum fleti, á bílatæðinu norðan við húsið og flutti svo á suður hliðina með aðstoð krana, og svo kol af kolli. Losaði þannig við að trufla starfseminnar í húsinu með hávaða og látum á meðan stillasinn var í byggingu. (SK)

Löndunarkranar Rauðkuverksmiðjunnar og dýpkunarpramminn Björninn. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjá fleiri myndir og sögur um Rauðku kranann hér:

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA
Undirbúningur við að bora eftir heitu vatni í Skútudal. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Í Skútudal. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Kranaslys í Skútudal. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Pistla höfundur gæti sagt ykkur endalausar sögur úr bæjarvinnunni, þarna voru margir af skemmtilegustu karakterum fjarðarins í vinnu.
En þetta sumar vorum við að ljúka við að steypa upp 8 köntuð kjarnorkubyrgi yfir hitaveitudælurnar uppí Skútudal á föstudagseftirmiðdegi og stóri Link-Belt kraninn nú í eigu Rammans var að sjálfsögu notaður í þetta mikla þarfa verk til að forða bæjarbúum frá því að verða hitavatnslausir eftir þrálát snjóflóð á dæluhúsin. Með í för voru kranastjórarnir þeir Birkir og Salli.
Steingrímur mætti í þetta skiptið bara til þess að taka myndir.

Þegar búið var að steypa, var kraninn notaður í að lyfta tveimur ekkert svo stórum lokum á brunn þarna rétt hjá. Seinna lokið rann af brunninum og við það kom snarpur kippur á kraninn, með þeim afleiðingum að malarundurstaðan undir krananum gaf sig og kraninn fer á hliðina og lendir rétt hjá brunninum.
Engin veruleg slys urðu á fólki sem betur fer. Birkir kranastjóri náði að henda sér út úr stýrishúsinu sem fór á kaf í jörðina, en Jónas í Rauðku sem var verkstjóri hitaveitunnar meiddi sig aðeins þegar einhver henti honum hreinlega niður af brunninum.

Það var vægast sagt hræðileg upplifun að sjá kranann koma á móti okkur þegar við stóðum uppá brunninum og eins og sjá má á myndunum lenti hann þar þétt sunnan við brunninn.

Kraninn lenti rétt við hliðina á brunninum, Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Seinnipart sama dag vildu Gísli Þorsteins bæjarverkstjóri, Jón á Hóli og Stebbi gamli endilega skeppa fram í Skútudal og kíkja á þetta slys.
Allir farnir heim og enginn starfsmaður í bæjaskemmunni og guli litli ljóti Mazda pallbíllinn hans Gísla er inni á verkstæði.
Gísli ákveður að taka hann, því bifvélavirkjarnir Biggi Björns og Ernst Kobbelt voru alltaf svo snöggir að laga allt sem kom þarna inn.

Ferðin gekk vel suður og uppeftir en á leiðinni til baka niður Skútudalinn komst Gísli af því af hverju bíllinn var inná verkstæði.
Hann var nefnilega bremsulaus og þessir þrír gömlu bæjarvinnu refir rétt náðu að henda sér út úr bílnum áður en hann endaði ofan í skurði. Enginn slasaðist sem betur fer og Gísli gengur síðan ofan í skurðinn og opnar bílinn til þess að kalla á hjálp í gegnum talstöðina.

Gísli: Hvar í andsk…… er talstöðin ????

Jón á Hóli:
Ertu að meina þetta ???……… Þá hafði Jón í fáti sínu gripið í talstöðina til þess að halda sér í eitthvað og rifið hana síðan með sér í fátinu þegar hann stökk út úr bílnum.

Þeir gamlingjarnir þurftu síðan að ganga langleiðina heim í rengingarsúld og kulda, en þeim varð síðan bjargað af einhverjum bæjarbúa sem var á rúntinum suður við Hólsárbrú.

Kranaslys á Hafnarbryggjunni. Löndunarvinna hjá Þormóði Ramma hf. Link Belt kraninn stóri var dæmdur ónýtur eftir Þetta slys. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

DÝPKUNARPRAMMAR, HEIMATILBÚNIR KAJAKAR OG FL. FLJÓTANDI SKRAPATÓL

Flestir Siglfirðingar muna eflaust vel eftir dýpkunarprammanum Björninn, sem þeir félagarnir Björn Þórðar og Aege Johanssen áttu saman í áratugi. Við krakkarnir kölluðum hann alltaf drullu-prammann ef ég man rétt. Björninn var gjörsamlega ódrepandi og hann sökk tvisvar eða þrisvar og það kveiknaði í honum líka minnir mig.

Það var bráðnauðsynlegt að hafa Björninn á staðnum. Í firði sem fyllist reglulega af sandi og grjóti. Björninn var sífellt að halda við dýpinu í syðri höfninni og duglegur við að sækja sand í byggingaefni.

Kranahúsið datt víst af Birninum og sökk við Hafnarbryggjuna í þetta skiptið. Ljósmyndari: Valbjörn Steingrímsson.
Björninn kominn í lag með selgdúk á kranahúsinu. Bjössi Þórðar stendur við stýrishúsið. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Dýpkunarvinna við Rauðkubryggju. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Gamla fræga dýpkunarskipið GRETTIR. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Grettir fyrir framan SR bryggjuna. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Nýr og stærri GRETTIR mættur á Sigló til að rífa niður gamlar síldarsöltunnar bryggjur 1980. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Steinsteyptir prammar! Suðurbær sumarið 1965 / 66? Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Þetta er að mörgu leyti merkileg ljósmynd, í vinstra horninu sjást vel tveir strandaðir síldarflutninga prammar sem voru búnir til úr steinsteypu. Löngu horfnir undir landfyllingu Leirutangans. Þeir tilheyrðu leiksvæði suðubæjarbarna og þarna gerðust mörg kajakstríð í denn. Undir Hafnargötubakkanum sjást horfnir síldarbrakkar og risastór síldarplön og langar bryggjur þar sem Síldarminjasafn Íslands stendur í dag. Þar fyrir ofan sést húsið hennar Stínu á Túninu og hún bjó svo sannarlega á túninu því það liggur enginn gata að þessu húsi.
Húsið hennar Stínu á Túninu og horfin fjárhús þar fyrir ofan. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Steinsteyptir sokknir prammar. Ljósmyndari: Steingrímur kristinson.

Heimatilbúnir Siglfirskir kajakar voru búnir til úr bárujárnsplötum og mjög vinsæl farartæki hjá Siglfirskum börnum og unglingum. Siglt bæði vetur og sumar eins sjá má á myndunum hér undir.

Bárujárnskajakar og ísjakar í Hvanneyrarkróknum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjá meira hér um kajaka og ýmsa leiki barna í denn:

Horfin ævintýraheimur: Skoger, Evanger, Tordenskjold… og ég! 1. hluti
Þessi er með mjög svo flottar árar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

AÐ LOKUM…

… skrítin skrapatól og hitt og þetta úr leitarorðaflokknum “VÉLAR OG FARARTÆKI” á Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Síldarhreistursperlugerðarvél. Haraldur Þór Friðbertsson verkstjóri á vélaverkstæði síldarverksmiðjunnar Rauðku – þarna með sérstaka smíði fyrir Aage Schöth apótekara vegna perlugerðar úr síldarhreistri. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Grjótmulningsvélin Búkolla. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Flottur og snyrtilegur vélasalur. Ljósmyndari óþekktur. Úr safni Gísla Halldórssonar framkvæmdastjóra SR.
Í vélasal SR 30, eftir að ein dísilvélin sprakk að hluta til í tætlur. Vélin var á fullu í gangi við að framleiða rafmagn fyrir verksmiðjuna þegar óhappið varð, með miklum hvelli og málmhlutir komu fljúgandi um allan salinn. Vélstjórinn slapp með skrekkinn. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson
Mælibúnaður frá University of Lancaster í Skotlandi, staðsettur og í umsjón Steingríms í kjallara hússins við Hvanneyrarbraut 80 á Siglufirði árið 1976. Búnaðurinn mældi meðal annars rafbylgjur himinhvolfsins, norðurljós og fl. Búnaður til þessara nota var þarna í nær 30 ár. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson
Loftnetsbúnaður tilheyrandi rafbylgjumælingum University of Lancaster í Skotlandi við Hvanneyrarbraut 80. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Kvikmyndasýningavélar í Nýja Bíó. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Þarna var Steingrímur sýningarstjóri frá 14 ára aldri, til ársins 1999, þegar kvikmyndasýningum lauk á Siglufirði. (Samanlagt 50 ára starfsferill)
Sýningavélar í Nýja Bíó 1980. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ungur nemur, gamall temur…. Steingrímur Örn Eiðsson, afastrákur, 12 ára sýningarmaður í Nýja Bíó. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
SR lyftari hangandi í SR krana 1999. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 HLUTI. 65 MYNDIR

Þessi mynd úr safni Gísla Halldórssonar sem hann tók sjálfur er svo flott að hún verður bara að fá að fljóta með. “Fljúgandi virki.” Staður og stund er óþekkt. Ljósmyndari: Gísli Halldórsson.

Höfundur og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Hannes P. Baldvinsson.
Guðbrandur Magnússon á þríhjólavespu.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfir frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Þakklætiskveðja til Steingríms Kristinssonar fyrir aðstoð, góð ráð og yfirlestur.

Aðrar áhugaverðar myndasyrpur sögur með mörgum minningum og myndum frá liðnum tíma:

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 2 HLUTI. 65 MYNDIR

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 MYNDIR

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 100 MYNDA-SYRPUSAGA

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI OG SEINNI HLUTI (100 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 – 4 HLUTI.

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

FURÐULEGAR GÖTUR 1 – 4 HLUTI

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir