Íslendingar hafa eignast nýtt athvarf á Gran Canaria þar sem þeir geta komið saman og gert sér glaðan dag. Staðurinn getur tekið allt að 440 manns í sæti og býður því upp á ýmsa möguleika segir á áhugaverðu vefsíðunni “Lífið er ferðalag“.

Þar segir meðal annars “Guðbjörg Bjarnadóttir hefur tekið yfir reksturinn á veitingastaðnum í Maspalomas Lago. Auk þess að bjóða upp á hefðbundnar veitingar á borð við hamborgara, samlokur, egg og beikon o.fl. yfir daginn þá sér hún fyrir sér að þar verði haldnar ýmsar uppákomur sem höfða munu til Íslendinga á svæðinu. „Ég sé fyrir mér spennandi tíma fram undan og endalaus tækifæri til ýmiskonar félagsstarfs. Við getum verið með allt að 440 manns í sæti hér svo húsnæðið býður upp á marga möguleika,” segir Guðbjörg.

Umræddur veitingastaður, Restaurante Maspalomas Lago, er inn í miðjum samnefndum íbúðakjarna. Í kjarnanum eru 119 búngalóar sem ýmist eru leigðir út eða eigendur þeirra búa þar meir og minna allt árið. Guðbjörg og maki hennar Viðar Sigurðsson, hafa átt hús í kjarnanum síðan 2016 en áður en þau keyptu það höfðu þau komið reglulega til Kanarí í um 20 ár.

Þau hafa ferðast vítt og breytt um kanarísku eyjarnar en kunna afar vel við sig í Maspalomas Lago, eða svo vel að Guðbjörg ákvað að taka við rekstri veitingastaðarins sem þjónustar kjarnann þegar eftir því var leitað. Guðbjörg hefur fengist við ýmislegt um starfsævina. Hún var í verslunarrekstri í Grindavík, hefur fengist við tölvukennslu og lengi vel rak hún eigið bókhaldsfyrirtæki.

Veitingarekstur er þó eitthvað sem er alveg nýtt fyrir henni en hún er spennt fyrir nýjum áskorunum, sem hafa reyndar verið nokkuð margar í aðdraganda opnunarinnar. „Ég er svolítið klikkuð að fara út í þetta, en ég vil hafa eitthvað að gera hérna,” segir Guðbjörg og viðurkennir að það hafi reynt á í ferlinu að tala ekki spænsku. „Spænskan kemur í hænuskrefum,” bætir Guðbjörg sem lætur málleysið ekki stoppa sig. Þá segist hún eiga góða vini á svæðinu sem hafi m.a. hjálpað til við þrif og annað í aðdraganda opnunarinnar en staðurinn var mjög skítugur eftir að hafa verið óstarfhæfur í covid. „Íslenska samfélagið og fólkið hér í kjarnanum hefur staðið vel við bakið á mér sem hefur verið ómetanlegt,”segir Guðbjörg þakklát. Þá segist hún finna fyrir auknum áhuga Íslendinga á því að leigja húsnæði í kjarnanum eftir að það spurðist út að íslenskur rekstaraðili hefði tekið yfir rekstri veitingastaðarins.

Lesa nánar.

Heimild og mynd/af vefsíðu Lífið er ferðalag