Mikið hefur verið spurt um hvenær götugrillið eigi að hefjast á Siglufirði á morgun fimmtudaginn 30. júlí. Það á að hefjast handa við grillin kl. 18:00 – en ekki hafa fengist upplýsingar um hvar þau verði staðsett.

Þrátt fyrir að Síldarævintýrið á Siglufirði hafi verið blásið af í ár um Verslunarmannahelgina verður lögð áhersla á að litaskreyta bæinn og halda hverfagrill . Það tókst glimrandi vel í fyrra íbúum til mikillar gleði og ánægju.

Bænum verður skipt upp í fjögur litahverfi eins og í fyrra og eru íbúar hvattir til að lífga upp á bæinn um verslunarmannahelgina með því að skreyta í hverfislitunum. Það eru sömu litir og í fyrra og veitt verða verðlaun fyrir frumlegheit, stíl o.fl.

Einnig verða skipulagðar götugrillveislur fyrir íbúa og gesti þeirra fimmtudagskvöldið 30. júlí. Það er í höndum íbúa hverfanna að skipuleggja sínar veislur.

Þrír öflugir bakhjarlar koma til liðs við bæjarbúa og útvega grunninn í góða veislu. Kjarnafæði gefur pylsur, Aðalbakarí pylsubrauð og Kjörbúðin útvegar viðeigandi meðlæti. Þetta eru sömu aðilar og studdu við götugrillin með veglegum hætti.

Lögð er áherslá á að þetta er aðeins grunnur og fólki bent á að grípa eitthvað með sér í sitt hverfisgrill.

Skiptingin á litahverfunum er eftirfarandi.

– Suðurbær, sunnan Skriðustígs, er rauður
– Eyrin, neðan Túngötu er gul
– Brekkan, ofan Túngötu, frá Skriðustíg að Þormóðsgötu er græn
– Norðurbær, utan Þormóðsbrekku er blár