Vildarvinir Siglufjarðar og Siglfirðingafélagið munu afhenda uppfærða útgáfu af afmælisgjöfinni á Síldarminjasafninu þann 31. júlí kl 17:00. 

Gjöf Vildarvina og Siglfirðingafélagsins samanstóð af 5 sjónvarpsþáttum um sögu Siglufjarðar og kvikmyndum  um lífið á Sigló og er kjarninn í gjöfinni myndir félaga úr kvikmyndaklúbbnum Linsunni sem starfaði á Siglufirði milli 1963 og 1970.

Í kjölfar afmælisins hefur bæst við myndefni sem eru afrit af kvikmyndum sem Helgi Sveinsson tók og má þar m.a sjá stórmerkar myndir tengdar seiðatöku og ræktun í Fljótaá auk skíðamynda frá Noregi og Svíþjóð.

Þá hefur einnig verið bætt við safnið öllum þáttum N4 um gangnagerð á Tröllaskaga sem inniheldur mörg skemmtileg viðtöl við íbúa Fjallabyggðar.

Það voru forréttindi og mikil ánægja að fá að koma að gerð þáttanna um sögu Siglufjarðar.  Borist hafa margar fyrirspurnir um hvort og þá hvar mögulegt er að nálgast efnið í heild sinni.  

Vildarvinir Siglufjarðar hafa ákveðið, með samþykki RÚV, að gefa Skíðafélagi Siglufjarðar – Skíðaborg  allt að 200 minnislykla með afritum af þáttunum sem þeir munu svo nýta sér til fjáröflunar til að fjármagna lokaáfangann af barnalyftu í Siglufjarðarskarð.

Móttakan hefst um kl 17:00 og er dagskráin eftirfarandi:

  1. Kynning á innihaldi gjafar Vildarvina og Siglfirðingafélagsins
  2. Andlit bæjarins – myndbrot úr smiðju Tómasar Hallgrímssonar
  3. Afhending uppfærðrar gjafir til Síldarminjasafnsins og fulltrúa Fjallabyggðar
  4. Afhending minnislykla til viðmælenda í þáttunum sem þakklætisvottur fyrir aðstoðina
  5. Afhending á gjöf Vildarvina til SSS í tilefni 100 ára afmælis 
  6. Afmælisgjöf til Golfklúbbs Siglufjarðar í tilefni 50 ára afmælis

Allir sem áhuga hafa á málefninu eru hvattir til að koma á Síldarminjasafnið og vera viðstaddir afhendinguna.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast þættina er bent á að senda tölvupóst á formann SSS Jón Garðar Steingrímsson – jongardar79@gmail.com

Sjá einnig frétt: “SIGLUFJÖRÐUR – SAGA BÆJAR” NÚ TIL SÖLU Á USB LYKLI

Forsíðumynd tók Ingvar Erlingsson af Siglufirði með dróna þann 3. júní 2018.