Í gær kom hópur barna í ánægjulega heimsókn í Ljóðasetur Íslands á Siglufirði þegar börnin af elstu deild leikskólans Leikskála á Siglufirði litu við.

Voru þau að endurgjalda heimsókn forstöðumanns Ljóðasetursins á dögunum en þá kíkti hann við á leikskólanum, las nokkur ljóð og söng og spilaði.

Börnin komu færandi hendi því meðferðis höfðu þau pakka sem innihélt frumsamin ljóð þeirra í ramma, þau munu sóma sér vel á setrinu.

Forstöðumaður þakkaði kærlega fyrir sig, sagði þeim frá Ljóðasetrinu, las nokkur dýraljóð og söng nokkur lög. Heimsókninni lauk svo með fallegum söng barnanna.

Þessar heimsóknir voru liður í ljóðahátíðinni Haustglæður.

 

Mynd: Ljóðasetur Íslands