Í desember ár hvert fá konur sem verða 23 ára á komandi ári kynningarbréf frá Leitarstöðinni þar sem kynnt er fyrir þeim að skipuleg skimun fyrir leghálskrabbameini hefjist við 23 ára aldur. Á Íslandi býðst konum á aldrinum 23 ára til 65 ára regluleg skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti.

Á sama tíma eru einnig send kynningarbréf til allra kvenna sem verða 40 ára á komandi ári og þeim kynnt fyrirkomulag skipulegrar skimunar fyrir brjóstakrabbameini sem hefst við 40 ára aldur. Konum á Íslandi býðst regluleg skimun fyrir brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti til 69 ára aldurs.

Nú er búið að endurskoða kynningar- og boðsbréfin með tilliti til nýjustu þekkingar og eru bréfin nú nokkuð lengri og með mun ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið. Þá hefur einnig verið gerð sú breyting að nú munu bréfin berast í gluggaumslögum.

Litirnir í glugganum gefa til kynna mismunandi innihald bréfanna:

  • Gult bréf er kynningarbréf um skipulega skimun fyrir brjóstakrabbameini, sent til 39 ára kvenna
  • Blátt bréf er boðsbréf sem segir að tími sé kominn á brjóstamyndatöku, sent á tveggja ára fresti
  • Grænt bréf er kynningarbréf um skipulega skimun fyrir leghálskrabbameini, sent til 22 ára kvenna
  • Bleikt bréf er boðsbréf sem segir að tími sé kominn á leghálsskimun, sent á þriggja ára fresti

Hægt er að rifja upp hvenær boð hafa verið send út um komu í skimun á „Mínum síðum“ á island.is.

Einnig er unnið að því að bréfin verði send rafrænt í persónuleg pósthólf hverrar og einnar konu á island.is.

Komugjöld fyrir skimun fyrir krabbameinum eru ákveðin með reglugerð frá velferðarráðuneyti . Gjaldið er nú kr. 4.700 og kr. 2.400 fyrir aldraða og öryrkja.

Krabbameinsfélagið hefur nú sett af stað tilraunaverkefni sem felst í að bjóða þeim konum sem verða 23 ára og 40 ára á árinu 2019  gjaldfrjálsa skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstakrabbameini á vegum Leitarstöðvarinnar.

Félagið hefur lagt til við stjórnvöld að gera skimun fyrir krabbameinum gjaldfrjálsa eins og víða er og leggur nú í ofangreint  til að kanna hvort gjaldfrjáls skimun auki þátttöku kvenna í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini. Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða nær það einungis til tveggja árganga kvenna, sem mæta í fyrstu skimun fyrir krabbameinum, á árinu 2019.

Með reglubundinni skimun fyrir krabbameinum er hægt að koma í veg fyrir leghálskrabbamein og greina krabbamein í brjóstum á byrjunarstigi. Mikilvægt er að panta tíma sem fyrst þegar boð kemur frá Leitarstöðinni.

Rétt er að taka fram að skimunin er ætluð einkennalausum konum. Ef konur eru með einkenni frá kvenlíffærum svo sem óeðlilegar blæðingar eða þykkildi eða hnúta í brjósti, er mælt með því að þær hafi samband við heimilislækni eða kvensjúkdómalækni.

Viltu vita meira?

Nánari upplýsingar, meðal annars um ávinning og áhættu skimunar sem og framkvæmd skoðunarinnar má finna á vefsíðu Krabbameinsfélags Íslands:

krabb.is/leghalskrabbameinsleit

krabb.is/brjostakrabbameinsleit