Birt hefur verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Þar eru lagðar til breytingar sem fela meðal annars í sér styrkingu á þeirri meginreglu að beiting nauðungar í heilbrigðisþjónustu sé óheimil.

Frumvarpsdrögin eru afrakstur víðtæks samráðs en þau voru unnin í samráðshópi sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um frumvarpið út frá sjónarhorni notenda. Samráðshópurinn var skipaður fulltrúum sem tilnefndir voru af landsamtökunum Geðhjálp, Landssambandi eldri borgara, Hugarafli, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp auk tveggja fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins sem skipaðir voru án tilnefningar.

Niðurstaða hópsins var að leggja skuli áherslu á að í lögum um réttindi sjúklinga verði sú meginregla styrkt að beiting nauðungar sé óheimil. Þó yrði ólíklega hjá því komist að í einhverjum tilvikum nauðung yrði beitt, annars vegar til að uppfylla lífsnauðsynlegar þarfir sjúklings eða hins vegar til að tryggja öryggi sjúklings.

Samráðshópurinn taldi einnig nauðsynlegt að settar yrðu skýrar reglur m.t.t. einstaklingsbundins mats á aðstæðum, verklagi framkvæmdar, skráningar í sjúkraskrá, tilkynningaskyldu til eftirlitsaðila, innri og ytri endurskoðun (kæru) og tryggja þyrfti að þessum reglum sé ávallt fylgt ef til beitingu nauðungar kemur. Lögð var áhersla á að áfram yrði unnið að því markmiði að draga úr beitingu nauðungar á heilbrigðisstofnunum í íslensku samfélagi og afleiðingum þess fyrir sjúklinga.

Frestur til að skila inn umsögn um frumvarpið er til 14. febrúar nk.

Mynd/Golli