Frá og með mánudeginum 31. maí fellur brott regla sem skyldar fólk frá skilgreindum hááhættusvæðum til að dvelja í sóttvarnahúsi meðan á sóttkví stendur.
Frá þeim tíma verður þeim einum skylt að dvelja í sóttvarnahúsi sem ekki hafa aðstöðu til að vera í heimasóttkví. Þeir sem koma frá skilgreindum hááhættusvæðum dagana 29. og 30. maí geta sótt um heimild til að dvelja allan þann tíma sem sóttkví er áskilin í heimahúsi. Þeir sem koma til landsins fyrir 29. maí og er skylt að fara í sóttvarnahús skulu ljúka sóttkví þar. Öllum sem koma til landsins og þurfa að sæta sóttkví ber sem fyrr að forskrá dvalarstað. Heilbrigðisráðherra hefur gefið út reglugerð þessa efnis sem tekur gildi 31. maí.
Eins og kynnt var í kjölfar ríkisstjórnarfundar 21. maí síðastliðinn hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að framlengja gildistíma reglugerðar um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19 til og með 15. júní næstkomandi. Jafnframt var greint frá þeirri ákvörðun ráðherra að fella úr gildi ákvæði reglugerðarinnar um skyldudvöl í sóttvarnahúsi eins og áður greinir.
Breyttar kröfur um sóttkví frá og með 31. maí:
- Frá og með 31. maí er afnumin regla sem skyldar fólk til að fara í sóttvarnahús á grundvelli þess hvaðan það kemur, þ.e. frá skilgreindum hááhættusvæðum. Frá sama tíma verður hætt að gefa út auglýsingu um svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði vegna COVID-19.
- Frá og með 31. maí er þeim einum skylt að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi sem ekki hafa aðstöðu til að vera í heimasóttkví.
- Þeir sem koma til landsins frá hááhættusvæðum dagana 29. og 30. maí geta sótt um að fara í sóttkví í heimahúsi allan þann tíma sem áskilinn er. Þetta á við um farþega frá öllum löndum sem talin eru upp í gildandi auglýsingu um svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði vegna Covid-19, hvort heldur í flokki I eða II samkvæmt auglýsingunni. Meðal þessara landa eru t.d. Frakkland, Holland og Svíþjóð.
- Núgildandi reglur um skyldudvöl í sóttvarnahúsi ná til þeirra sem koma til landsins 28. maí eða fyrr. Þeim sem samkvæmt þeim reglum er skylt að dvelja í sóttvarnahúsi skulu ljúka sóttkví þar.
- Áfram verður skylt að forskrá dvalarstað í sóttkví, hvort sem það er sóttvarnahús eða húsnæði á eigin vegum.
Skráning vegna komu til Íslands á Covid.is
Forsíðumynd: Golli