Stjórn SSNV veitir árlega viðurkenninguna Byggðagleraugun þeim ráðuneytum, stofnunum, fyrirtækjum og/eða verkefnum í landshlutanum sem þykja hafa skarað fram úr með fjölgun starfa og/eða verkefna eða á annan hátt stuðlað að uppbyggingu í héraðinu.
Í ár hlaut Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, ásamt Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, þessa viðurkenningu. Það er embættinu mikill heiður og dýrmæt staðfesting að taka á móti Byggðagleraugunum 2025.
Í rökstuðningi stjórnar SSNV kemur meðal annars fram að sérstaklega hafi verið horft til aukins sýnileika embættisins á samfélagsmiðlum sem höfða til ungs fólks, mönnunar lögreglustöðvar á Hvammstanga, sem og verkefnisins Öruggara Norðurland vestra, sem embættið leiðir.
Á síðustu misserum hefur átt sér stað ákveðin nýsköpun í starfsemi lögreglunnar í héraðinu, þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á samfélagslöggæslu. Sú nálgun byggir á virku samstarfi og samvinnu við stofnanir, einstaklinga og aðra hagaðila, með hliðsjón af svæðisbundnum þörfum. Forvarnarstarf embættisins er mótað í samræmi við þarfir samfélagsins og byggt á niðurstöðum rannsókna.
Þá má einnig nefna sem nýmæli að innan embættisins starfar nú borgaralegur sérfræðingur með bakgrunn í kennslu, félagsþjónustu og barnavernd. Eitt af hans meginhlutverkum, auk þess að skipuleggja samfélagslöggæslu og afbrotavarnir, er að tryggja góða þjónustu við borgara og efla samstarf við aðrar stofnanir. Við lítum á það sem eina af okkar skyldum að leiðbeina borgurunum og veita þeim aðstoð eftir bestu getu.
Það er von okkar og trú að með þessu verklagi stuðlum við að auknum lífsgæðum íbúa í landshlutanum og gerum hann eftirsóknarverðan til búsetu.
Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur embættisins í samfélagslöggæslu og afbrotavörnum, veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn á ársþingi SSNV í dag. Henni til fulltingis var Pétur Björnsson, yfirlögregluþjónn.

Myndir og heimild/ Lögreglan á Norðurlandi vestra